Trivento Cabernet Sauvignon Reserve 2007

Trivento er eitt af dæmunum um „innrás“ Chile í Argentínu síðustu árin. Þrátt fyrir að Argentína beri höfuð og herðar yfir Chile í vínframleiðslu þegar horft er til sögunnar og hversu mikið er framleitt af víni þá verður að segjast eins og er að vínbændur í Argentínu geta og eru að læra ýmislegt frá frændum sínum vestan Andes-fjalla.

Vínekrur Trivento eru í eigu chilenska vínrisans Concha y Toro sem er meðal þeirra fyrirtækja sem hefur náð hvað lengst í því að gera mikil vín sem kosta ekki mikið.

Trivento Cabernet Sauvignon Reserve 2007 einkennist af heitum krydduðum ávexti í nefi, sólber með karamellu, vanillu en einnig jafnólík krydd og rósmarín og negull. Það er ferskt í munni með hressilegum tannínum en jafnframt mjúkt og þykkt með sætum ávexti.

Í raun vín sem gefur afskaplega mikið miðað við verðið og það fær sína fjórðu stjörnu fyrir hlutfalls verð/gæða. Ég myndi reyna það með grilluðu kjöti, ekki síst lambakjöti, en líka kjúklingnum hans Alibab.

1.659 krónur. Mjög góð kaup.

 

 

 

 

Deila.