Chile kvartar ekki yfir kreppu

Heimskreppan hefur haft veruleg áhrif á víniðnaðinn um allan heim. Stórlega hefur dregið úr sölu á kampavíni og vínhús sem virtust geta sett hvaða verð sem var á framleiðslu sína fyrir tveimur til þremur árum, í þeirri vissu að alltaf væri einhver í Asíu eða Rússlandi sem myndi kaupa vínið engu að síður, standa frammi fyrir gjörbreyttum veruleika.

Það kvarta þó ekki allir. Vínframleiðendur í til dæmis Chile og Argentínu hafa nýtt sér þau sóknarfæri sem til staðar eru fyrir þá sem geta boðið upp á góð vín á viðráðanlegu verði. Felipe del Solar, útflutningssstjóri hjá Concha y Toro, segir framleiðendur í Chile vissulega finna fyrir kreppunni hvað dýrustu vínin varðar. Hins vegar hafi ódýrari vínin tekið mikinn kipp.

Alls framleiða um 400 vínhús í Chile vín til útflutnings og er Concha y Toro þeirra langstærst en svo koma San Pedro og Santa Rita. „Þessi stóru vínhús geta mótað heildræna og hnattræna stefnu varðandi markaðssetningu vína sinna sem er kostur við aðstæður eins og þær í dag. Við störfum hins einnig með samtökunum Wines of Chile sem allir vínframleiðendur landsins eiga aðild að og reynum að móta heildstæða stefnu fyrir landið í heild.“

Þekktasta vín Concha y Toro er líklega Casillero del Diablo sem þýðir kjallari kölska. Það nafn má rekja til nítjándu aldar er eigandi vínhússins bjó til sögu um að kölski sjálfur hefði aðsetur í vínkjallara hans til að fæla starfsmenn frá því að læðast niður í kjallara og og næla sér í flöskur. Kjallarinn er enn til eins og sjá má á myndinni.

Það vekur oft furðu manns hversu góð Casillero del Diablo-vínin eru þrátt fyrir að gífurlegt magn sé framleitt af þeim. Del Solar segir að lykillinn á bak við velgengni Casillero del Diablo-línunnar hafi legið í því að tryggja stöðug og vaxandi gæði í á annan áratug, þrátt fyrir að heildarframleiðslan sé nú komin í 3 milljónir kassa. „Við leggum áherslu á magnið án þess að gæðum sé fórnað og nú nýlega fengum við mikla viðurkenningu er Decanter Magazine sagði 2005 árganginn af Cabernet Sauvignon vera besta Cabernet í heimi. Auðvitað eru því takmörk sett hversu langt við komumst í magni, en við eigum nokkuð í land með það. Við eigum margar góðar ekrur og erum þar að auki í góðu sambandi við fjölda vínræktenda sem við kaupum þrúgur af.“

Til lengri tíma litið er það stefna Chile að hækka sig upp hvað gæðaímynd landsins varðar og leggja meiri áherslu á vönduð og dýrari vín. Del Solar segir þó ávallt hættu á því að einhverjir verði til að grafa undan þeirri ímynd með því að dæla miklu magni af mjög ódýru víni á markaðinn. Það sé til dæmis vandamál sem Argentína hafi á sínum tíma lent í.

Helsti keppinauturinn á heimsmörkuðum er einmitt Argentína og segir del Solar að Argentínumenn hafi forskot vegna mjög gróins víniðnaðar og mun sterkari almennrar ímyndar landsins, t.d. vegna tangós og knattspyrnu.

Concha y Toro hefur hins vegar mætt þeirri samkeppni með því að fjárfesta mikið í argentínskum víniðnaði og eru t.d. vínin Criollo, sem nýlega komu í sölu á Íslandi úr smiðju þeirra.

Helsti styrkur fyrirtækisins segir að hann sé stærðin og þar af leiðandi sú mikla breidd sem hægt sé að bjóða neytendum upp á. Allt frá einföldum vínum á borð við Frontera og Sunrise og síðan fínni vín á borð við Trio, Casa Concha, Terrunyo og Don Melchor. Sum þessara vína eru fáanleg hér og segir del Solar það til dæmis hafa komið sé á óvart að sjá Terrunyo á lægra verði í Fríhöfninni í Keflavík en vínið er selt á í Chile. Einhver bestu kaupin almennt séu hins vegar í Trio línunni en þar fékk Concha y Toro einn þekktasta víngerðarmann Chile, Ignacio Recabarren til liðs við sig.

Deila.