Carmen – elsta vínhús Chile

Það er athyglisvert að sjá hvernig eldri fyrirtæki og eldri svæði eru að þróast í Chile. Vina Carmen er elsta vínhús landsins en hefur tekist að halda sér í fremstu röð og verið í hópi leiðandi fyrirtækja þegar kemur að því að leiða þróunina áfram, t.d. með því að veðja á hvítvínrækt í Casablanca.

Aðalvíngerðarmaður Carmen er María Pilar del Gonzáles sem var raunar aðalvíngerðarmaður Vina Santa Carolina þegar ég hitti hana síðast. Þar vann hún í 20 ár áður en hún hóf störf hjá Carmen.

María Pilar hefur verið að þróa Carmen-vínin áfram síðustu árin og ekki er ég frá því að hins kvenlega innsæis sé farið að gæta í auknum mæli. Hún hefur unnið töluvert í Búrgund í Frakklandi t.d. með William Févre og vínin úr Búrgundarþrúgunum eru stórgóð. Winemakers Reserve Chardonnay hefur t.d. breyst töluvert eftir að María Pilar tók við víngerðinni. Það hefur verið dregið mjög mikið úr eikinni og öll áherslan er á ávöxtin sem er kraftmikið með dúndrandi suðrænum ávexti. Enn róttækari eru breytingarnar á Reserve Pinot Noir sem er aflmikið og tannískt vín með svörtum berjaávexti og nýmöluðu kaffi í nefi. Frá og með árganginum 2004 eru notaðar þrúgur frá Casablanca í stað Maipo. „Ég er alls ekki að reyna að gera búrgúndískan Pinot. Þó svo að Casablanca sé svalara svæði en Maipo þá er það heitara en Búrgund. Við erum því með annan stíl,“ segir María Pilar.

Aðstæður í Maípo henta hins vegar mjög vel fyrir þrúgur sem þurfa mikinn hita og sól og er Cabernet líklega besta dæmið. Carmen tekst mjög vel til með þrúgnablöndurnar og má nefna Carmenere-Cabernet sem dæmi. „Carmenere er fín þrúga í blöndur en hún á erfiðara með að standa á eigin fótum,“ segir María Pilar. Önnur blanda sem er ekki síður vel heppnuð er Syrah-Cabernet. Viilji menn kynnast hinum klassísku einkennum Maípo mælir hún með Reserve Cabernet Sauvignon sem er dökkt og mikið vín þar sem hin dæmigerða mynta Maípo héraðsins kemur vel fram.

Deila.