Þetta er ein af þessum uppskriftum sem geta ekki klikkað, klassísk, bragðmikil og góð humarsúpa. Það er tilvalið að nota litla humarhala í súpuna.
- 1 kíló humar
- 1 laukur, saxaður
- 1 gulrót, skorin í teninga
- 1 steinseljubúnt
- 1 dós tómatkraftur
- 1/2 dl dökkt romm eða koníak
- 3 dl hvítvín
- 1 lítri matreiðslurjómi (eða rjómi)
- 1 tsk fiskikraftur
- salt og cayennepipar
Skolið humarinn vel og takið humarhalana úr skeljunum. Leggið halana til hliðar.
Steikið skeljarnar, laukinn, gulrótina og steinseljuna í potti í um 5 mínútur. Bætið þá tómatkraftinum við og hellið síðan romminu út í pottinn. Sjóðið alveg niður og bætið þá hvítvíninu út í pottinn ásamt fiskikraftinum. Sjóðið niður um helming. Bætið rjómanum saman við og látið malla á vægum hita í um korter eða þar til súpan er orðin þykk og fín.
Sigtið skeljarnar og grænmetið frá og bætið humarhölunum út í súpuna. Smakkið og saltið varlega ef þarf og kryddið með örlitlum cayennepipar. Látið malla áfram í um fimm mínútur.
Það er hægt að útbúa súpuna með nokurra klukkustunda fyrirvara. Bíðið bara með að bæta humarhölunum við. Hitið hana svo upp rétt áður en á að bera hana fram og bætið þeim út í.
Með þessu að sjálfsögðu Chablis, t.d. frá Joseph Drouhin eða Laroche.