Mimosa

Er Mimosa kokkteill eða ekki og hvort kom fyrst hún eða hinn keimlíki drykkur Bucks Fizz (þar sem dass af Grenadine er yfirleitt bætt við). Ein sagan segir að Mimosan hafi fyrst orðið til á barnum á Ritz í París árið 1925 en það er óumdeilanleg staðreynd að hann er gífurlega vinsæll, ekki síst í Bandaríkjunum með brunch eða við hátíðleg tækifæri á borð við brúðkaup.

Hráefnin eru tvö, annars vegar kampavín og hins vegar appelsínusafi. Ekki spillir að hafa hann ferskpressaðan. Það er svo auðvitað alveg leyfilegt árið 2010 að nota freyðivín en hið franska Jacqueline er til dæmis ódýrt og gott í svona blöndur.

Hlutföllin eru svo yfirleitt 3 hlutar af kampavíni á móti 2 hlutum af appelsínusafa og bæði vínið og safinn verða að vera mjög kaldir. Það er hægt að nota klaka líka en þá er betra að  nota falleg vínglös en kampavínsglös.

Síðan eru til endalausar útgáfur í viðbót.

Bætið 1 cl af Grand Marnier í hvet glas og drykkurinn heitir Grand Mimosa sem er keimlíkur Mama Mimosa en þá er appelsínulíkjörinn Triple Sec notaður í staðinn fyrir Grand.

Þá má nota greipsafa, trönuberjasafa eða annan góðan ávaxtasafa í staðinn fyrir appelsínusafa.

Loks er auðvitað hægt að hafa hafa drykkinn óáfengan, þá heitir hann Fauxmosa, og kemur þá sódavatn eða Sprite í staðinn fyrir kampavínið.

 

 

Deila.