Kjúklingur frá Emilia Romagna

Héraðið Emilia Romagna er ein helsta matarkista Ítalíu og matargerð þess er mögnuð. Þekktasti rétturinn sem kenndur er við héraðið er líklega Bolognese. Þetta er kröftug bragðsamsetning sem kemur ótrúlega vel út.

  • 1 stór kjúklingur, bútaður í átta bita
  • 5 dl Borlotti baunir (yfirleitt til niðursoðnar)
  • 150 g beikon/pancetta
  • 1/2 dl balsamikedik
  • 2 dl ólívuolía
  • 2 msk akasíuhunang
  • 1 bréf Coppa-pylsusneiðar
  • 1 rauðlaukur, saxaður
  • 1 lúka salvía
  • 1 búnt graslaukur, skorinn í bita

Blandið saman beikoni, balsamikediki, 1/2 dl af ólívuolíu, hunanginu og pipar í skál. Veltið kjúklingabitunum upp úr og geymið.

Hitið ólívuolíu á pönnu. Steikið rauðlaukinn þar til hann fer að múkjast. Bætið þá Coppa, baununum og salvíu út á og eldið á vægum hita í 6-8 mínútur. Haldið heitu undir loki.

Takið kjúklingabitana úr kryddleginum og grillið.

Á meðan eru beikonsneiðarnar veiddar upp úr kryddleginum og eldaðar á þurri pönnu, þar til fara að verða stökkar.

Setjið baunir á diska, setjið beikon til hliðar. Hellið smá ólívuolíu yfir og sáldrið söxuðum graslauk yfir. Setjið kjúkling á diskana og berið fram.

Með þessu þarf öflugt og fínt ítalskt rauðvín.

 

Deila.