Norrænir nemar keppa

Norræna nemakeppnin í matreiðslu og framleiðslu var haldin í Hótel- og matvælaskólanum í Kópavogi á dögunum. Fyrir Íslands hönd kepptu þeir Hafsteinn Ólafsson frá Vox og  Birkir Örn Sveinsson frá Fiskifélaginu í matreiðslu en þær Esther Jakobsdóttir frá Einari Ben og Inga Dóra Snorradóttir frá Hótel Loftleiðum í framreiðslu.

Fjölmennur hópur keppenda og dómara kom frá Norðurlöndunum og urðu nemarnir að ljúka margvíslegum verkefnum. Þjónanemarnir urðu m.a. að keppa í vínsmökkun og hápunkturinn var fjögurra rétta máltíð er matreiðslunemarni elduðu og framreiðslunemarnir báru fram á borð sem þeir höfðu sett upp og skreytt.

Öll smáatriði skipta máli í keppnum sem þessum, allt frá blómaskreytingum á borðum upp í samsetningu matarins á diskunum.

Matreiðslunemarnir þurftu að nota krækling, bleikju, lamb og epli í réttina en fengu að auki körfu með margvíslegum hráefnum til að vinna úr. Danir urðu hlutskarpastir í keppni matreiðslunema en íslenska liðið var í öðru sæti. Í keppni framreiðslunema sigruðu Norðmenn en íslenska liðið náði þriðja sætinu.

Deila.