Þessi uppskrift er tímafrek að því leytinu til að það er ekki fyrr en á þriðja degi sem öndin er elduð. Biðin er hins vegar þess virði og hvert skref uppskriftarinnar er einfalt í framkvæmd.
Hráefni
- 1 önd, 2,5-3 kíló
- 5 sm stk engifer
- 6 hvítlauksgeirar
- 1/2 dl þurrt sérrí (fino)
- 1/2 dl sojasósa
- 1 msk sykur
- 1 tsk Five Spice krydd
- 1/2 dl balsamikedik
- 1 dl hunang
Dagur 1
Skerið engiferstykkið niður í sneiðar og merjið með því að þrýsta hliðinni á eldhúshníf á þær. Merjið hvítlauksgeirana. Komið engifersneiðunum og hvítlauksgeirunum fyrir inni í öndinni.
Blandið saman sérrí (eða kínversku hrísgrjónavíni ef þið eigið það til), sojasósu, sykri og Five Spice. Setjið öndina í stóran frystipoka. Hellið blöndunni í pokan og þekið öndina vel með kryddleginum, bæði að innan og utan. Geymið í ísskáp í sólarhring. Gott er að snúa pokanum að minnsta kosti einu sinni.
Dagur 2
Takið öndina úr pokanum. Látið kryddlögin leka af henni og takið engifersneiðarnar og hvítlaukinn úr henni.
Sjóðið um 2 lítra af vatni. Setjið öndina í stórt sigti yfir vaski og hellið sjóðandi vatni yfir hana, helming á hvora hlið. Þerrið fuglinn með eldhúspappír og setjið í fat.
Sjóðið balsamikedik og hunang saman í nokkrar mínútur. Penslið blöndunni á öndina. Setjið öndina í ísskáp og geymið yfir nótt.
Dagur 3
Takið öndina úr ísskápnum a.m.k. eina klukkustund áður en hún er elduð þannig að hún nái stofuhita.
Hitið ofninn í 200 gráður. Setjið öndina á steikingarfat og eldið í um klukkustund. Látið bringurnar snúa niður fyrstu 20 mínúturnar en snúið henni þá við. Ef hún fer að dökkna of mikið er skynsamlegt að lækka hitann í 180 gráður síðustu 20 mínúturnar.
Endanlegur eldunartími ræðst af stærð fuglsins.
Meðlæti
1 búnt vorlaukur, sneiðið niður í þunnar ræmur
Sósa: 2 dl Hoi Sin sósa. Blandið 1 msk af sesamolíu saman við.
Takið öndina úr ofninum. Leyfið henni að jafna sig í um 10 mínútur og sneiðið þá niður. Skerið lærin frá. Skerið bringurnar frá skipinu og sneiðið niður. Setjið á fat eða beint á diska.
Berið fram með hrísgrjónum, sósunni og niðursneiddum vorlauknum.
Með öndinni er gott að bera fram ferskt Chardonnay frá Nýja heiminu, t.d. Montes Chardonnay.