Lambið eins og það leggur sig

Lambið er líklega vinsælasti grillmatur okkar Íslendinga og yfirleitt eru það kótilettur eða file sem rata á grillið hjá flestum. Sumir fara hins vegar alla leið og grilla lambið eins og það leggur sig.

Það er mismunandi hvað menn taka grillið alvarlega. Á Akureyri er gata sem heitir Goðabyggð og þar voru haldinn mikil götugrill á árum áður. Í götunni bjuggu miklir grilláhugamenn og bæði kjötiðnaðarmaður og járnsmiður.  Þarna þróuðu íbúar görunnar tækni við að heilgrilla lamskrokka og járnsmiðurinn smíðaði grill sem dugði vel til slíkra athafna. Friðfinnur Hermannsson ólst upp í þessari götu og hefur síðustu 30 árin heilgrillað a.m.k einn lambskrokk á ári og oft nokkra. Raunar hefur ýmislegt fleira ratað á teininn hjá Friðfinni. Hann hafði lengi langað að grilla grís líkt og vinsælt er t.d. á Spáni. Eftir nokkra leit fann hann svínabónda sem gat útvegað honum grís en þegar grísinn kom í hús reyndist hann ekki vera nein smásmíði. Þetta var 32 kílóa smágöltur þegar búið var að saga af honum hausinn og því rúmlega helmingi stærri en meðal lambaskrokkur. Engu að síður var ákveðið að grilla göltinn með hefðbundnum hætti og þó að teinninn hafi svignað undan þyngdinni og snúningsmeistararnir svitnað þá hafðist það að lokum að ljúka við matseldina, sem tók um átta klukkutíma. „Þegar við sáum hvað þetta var mikið af mat var ekkert annað til ráða en að bjóða öllum í götunni til grillveislu,“ segir Friðfinnur. Bóndanum var líka boðið og þótti honum svínið svo mikið hnossgæti að hann neitaði að taka við borgun fyrir gripinn.

Grísagrillunin hefur  verið endurtekinn einu sinni síðan en þá var grísinn helmingi minni og  bragðaðist ekki eins guðdómlega og sá stóriVið fengum að fylgjast með þegar Friðfinnur skellti einum skrokk á grillið en hann fékk góðan félaga sinn Sigurjón Þórðarson til að aðstoða við verkið. Fyrsta skrefið er að bera ólívuolíu á lambið en síðan er kryddblöndu nuddað á skrokkinn. Þegar því er lokið er lambið fest á teininn og komið fyrir á grillinu.

Eldunin tekur alla jafna um þrjár klukkustundir og skiptir miklu að snúa lambinu stöðugt til að það brenni hvergi. Hægt er að fá rafknúna teina á sum minni grill en Friðfinnur segir að í hans tilviki hafi verið ákveðið að hafa snúninginn bjórknúinn. Gott er að hafa teymi manna til taks þannig að hægt sé að skipta reglulega út – enda ekki á einn mann leggjandi að sitja í margar klukkustundir og snúa lambinu við eldinn.

Gott er að setja álpappír yfir hrygginn þegar líður á eldunina enda þarf hann mun skemmri eldunartíma en lærin og bógurinn.

Þegar lambið er fulleldað er ekkert annað eftir en að sneiða það niður og bera fram en heill skrokkur ásamt meðlæti dugar vel til að metta á þriðja tug gesta.

Deila.