BBQ kjúklingur

Það er auðvitað hægt að kaupa tilbúnar grillsósur í öllum verslunum. Það jafnast hins vegar ekkert á við heimatilbúnar sósur. BBQ-sósa er yfirleitt notað sem samheiti yfir grillsósur þar sem tómatsósa er uppistaðan.

Hráefni:

 • 2 dl Heinz Chili Sauce
 • 2 dl tómatsósa
 • 2 dl bjór/pilsner
 • 1 laukur, fínsaxaður
 • 4 hvítlauksgeirar, fínsaxaðir
 • 1 msk Dijon-sinnep
 • 1 tsk paprikukrydd
 • 1 tsk chilikrydd
 • 1 tsk cayennepipar
 • 1 dl púðursykur
 • 1/2 dl vínedik
 • 1/2 dl Worchestershire-sósa

Hitið olíu í þykkum potti. Mýkið laukinn í 3-4 mínútur. Bætið þá hvítlauknum út í og hrærið saman við laukinn. Bætið næst kryddunum saman við, papriku, chili og cayenne. Blandið saman og bætið þá sinnepi, tómatsósu, chili-sósu, ediki, Worchestershire, bjór og púðursykri út í pottinn. Látið malla á vægum hita í allt að hálftíma eða þar til að sósan er farin að þykkna vel.

Nú er sósan tilbúinn til notkunar næst þegar kjúklingur er grillaður. Hægt er að nota hana strax eða geyma í ísskáp í einhverja daga. Grillið kjúklingabitana í um 10 mínútur. Penslið þá bitana með sósunni og grillið áfram þar til að kjötið er fulleldað. Penslið áfram með sósunni eins og þarf.

Deila.