Ser Píero Leonardo Chardonnay 2010

Nafnið á þessu hvítvíni má rekja til Leonardo da Vinci líkt og nöfn margra annarra vína frá vínsamlaginu Cantina Leonardo í Toskana á Ítalíu en þetta er eitt af millinöfnum meistarans þótt það sé sjaldan notað.

Vínsamlagið var stofnað árið 1961 og hefur áherslan í víngerðinni færst frá magni yfir í gæði, ekki síst undir stjórn víngerðarmannsins Ricardo Pucci. Þetta yndislega hvítvín er flokkað sem Toskana IGT enda er Chardonnay-þrúgan aðkomumaður á þessum slóðum.

Ser Piero er samt eiginlega meira ítalskt en Chardonnay í öllum stíl.  Það er í senn með sætan ávöxt og frísklegt, í nefi hvít ber, melóna, apríkósa og  sætur sítrónubörkur. Ágætlega þéttur og sætur hitabeltisávöxtur í munni með ferskum enda. Þetta er mjög þægilegt vín til að sötra t.d. sem fordrykk.

1.999 Mjög góð kaup.

 

Deila.