Risarækjur með pasta og kryddjurtum

Risarækjur eru frábær sumarmatur og fljótlegar og einfaldar að elda. Hér eru þær í miðjarðarhafslegum stíl með pasta og kryddjurtum ásamt ólíviuolíu og sítrónu. Risarækjur er hægt að fá frosnar í flestum stórmörkuðum.

  • 400 g risarækjur
  • 1 lúka ferskt óreganó, fínsaxað
  • 1 lúka söxuð steinselja
  • 1 msk þurrkað óreganó
  • 1 tsk þurrkað chili
  • 4 hvítlauksgeirar, fínt saxaðir
  • rifinn börkur af einni sítrónu og smá safi
  • 500 g pasta, t.d. spaghetti eða linguini
  • ólívuolía
  • salt og pipar

Sjóðið pasta skv. leiðbeiningum á pakka.

Skolið rækjurnar vel. Það er ágætt en ekki nauðsynlegt að skelhreinsa fiskinn. Rækjurnar eru bragðmeiri ef þær eru steiktar í skelinni en það kallar þá á nóg af handþurrkum þar sem pilla þarf rækjurnar við borðið.

Hitið um 1 msk af ólívuolíu á pönnu, Steikið rækjurnar í um 2 mínútur á hvorri hlið ásamt hvítlauknum, þurrkuðu óreganó og chiliflögunum. Saltið og piprið.

Blandið saman 1 dl af ólívuolíu, sítrónuberkinum steinseljunni og fersku óreagnó ásamt um 1 msk af pressuðum sítrónusafa. Hellið út á pönnuna og blandið saman við rækjurnar.

Setjið pasta í skál og blandið rækjunum og sósunni vel saman við og berið strax fram.

Með þessu hentar austurrískur Gruner Veltliner frábærlega t.d. Brundlmayer eða Fischer.

 

 

 

Deila.