Döðlufylltar grísalundir með Amarula-sósu og Fetamús

Grísalundir fylltar með döðlum og salvíu, kartöflumús með Feta-osti og sósa byggð á líkjör úr suður-afrískum Marula-ávexti. Algjörlega himnesk blanda.

 • 2 grísalundir
 • 3 dl döðlur, fínt saxaðar
 • 1 væn lúka salvíublöð, söxuð
 • 2,5 dl rjómi/matreiðslurjómi
 • 1 dl Amarula-líkjör
 • smjör og olía til steikingar
 • salt og pipar.

Biðjið kjötborðið um að setja lundirnar í gegnum kjötvalsinn líkt og verið væri að fletja bita í snitsel. Setjið kjötbitana á skurðbretti, þekjið með plastfilmu og berjið þá síðan vel til með kjöthamri eða fletjið út með kökukefli.

Veltið kjötbitunum létt upp úr hveiti. Saltið og piprið. Dreifið döðlunum og fínt saxaðri salvíunni yfir útflattar lundirnar. Rúllið þeim síðan upp langsum og festið með tannstönglum.

Hitið olíu og smjör á pönnu. Brúnið upprúllaðar lundirnar vel á öllum hliðum. Hellið rjóma og Amarula út á pönnuna. Leyfið suðunni að koma upp, lækkið þá hitann og leyfið að malla undir loki í um 10 mínútur eða þar til sósan er farin að þykkna.

Fetamús

 • 800 g kartöflur
 • 50 g smjör
 • 1 dl mjólk
 • 1 dós Fetaostur í kryddolíu
 • salt og pipar

Sjóðið kartöflurnar. Hellið vatninu frá og setjið aftur í heitan pottinn. Leyfið vatninu sem eftir situr á þeim að gufa upp. Stappið kartöflurnar vel og blandið smjörinu saman við. Hrærið næst mjólkinni saman við. Hellið mestu af olíunni af Fetaostinum en skiljið eftir 1-2 matskeiðar. Blandið Fetaostinum saman við olíuna. Hrærið vel saman. Slökkvið á hitanum, bragðið til með salti og pipar ef þarf.

Takið lundirnar af pönnunni. Takið tannstönglana úr og skerið varlega niður í sneiðar. Setjið sneiðarnar á diska ásamt skammti af Fetamús og klettasalati. Hellið sósunni á diskinn.

Með þessu á gott Nýjaheimsrauðvín vel við t.d. suður-afrískur Pinotage eða Shiraz.

Deila.