Poggio dei Corleri Vermentino Vigna Sorí 2010

Lígúría er lítið víngerðarhérað við Genóaflóa á Norðvestur-Ítalíu sem er þekkt fyrir frammúrskarandi hvítvín m.a. úr þrúgunum Pigato og Vermentino. Vín frá Lígúriu hafa hins vegar vart verið fáanleg á Íslandi fram að þessu. Það er í sjálfu sér ekki svo skrýtið. Ligúría er næstminnsta vínræktarhérað Ítalíu og vínin sjást sjaldan utan Ítalíu.

Tvö vín frá Poggio dei Gorleri, sem er með bestu framleiðendum Lígúríu, eru nú fáanleg í vínbúðunum. Þetta er ungt, nútímalegt og metnaðarfullt vínhús, stofnað árið 2003 af Giampiero Merano og sonum hans Matteo og Davide.

Poggio del Gorleri Vermentino 2010 er hreint, tært og óeikað. Angan einkennist af sítrus ásamt fíkjum, hvítum ferskar kryddjurtir, estragon og ristuðum furuhnetum. Það hefur míneralískt yfirbragð, stíft, þétt, nokkuð sýrumikið og skarpt. Vín sem kallar á mat, það smellur vel að t.d. laxi eða bleikju og ræður við þykkar sósur. Reynið einnig með pestó-réttum.

2.995 krónur. Frábær kaup.

 

 

Deila.