Chili humar með appelsínu

Humar er frábært hráefni og oft best að gera sem minnst við hann. Hér er einföld en góð uppskrift að humar þar sem chili og hvítlaukur ásamt appelsínuberki bæta við bragðið.

humarhalar

  • 1 tsk chiliflögur
  • 1 msk rifinn appelsínubörkur
  • 3 hvítlauksgeirar, fínsaxaðir
  • 50 g smjör
  • salt og pipar

Klippið humarhala báðum megin og garnhreinsið. Skolið undir köldu vatni, þerrið og setið í ofnfast mót.

Hitið smjörið í potti og mýkið hvítlaukinn í 1-2 mínútur ásamt appelsínuberki og chiliflögum. Hellið yfir humarhalana og veltið þeim vel upp úr blöndunni. Saltið og piprið.

Setjið mótið með humrinum í 200 gráðu heitan ofn og eldið í um fimm mínútur eða þar til þeir eru fulleldaðir.

Setjið salat á disk, humarhalana yfir og hellið chili-smjörblöndunni loks yfir.

Hér þarf virkilega gott hvítvín með, t.d. Poggio del Corleri Cygnus frá Lígúríu á Ítalíu.

Deila.