Il Poggione Brunello di Montalcino 2006

Brunello-vínin eru einhver allra bestu vín Ítalíu og Il Poggione er einhver besti framleiðandi Brunello-vína. Það var í hópi þeirra fyrstu sem hóf framleiðslu á Brunello en það vill oft gleymast að þessi vínstíll þróaðist ekki fram fyrr en upp úr miðri síðustu öldu.

Il Poggione 2006 er magnað vín, enda framleiðandinn frábært og árgangurinn 2006 sömuleiðis, hann er gjarnan flokkaður í sama flokki í Toskana og 1997 á síðasta áratug. Vínið er klassískt, mikið um sig og að flestu leyti óaðfinnanlegt. Ekki yfirþyrmandi heldur er krafturinn meira undirliggjandi og fínleikinn mikill. Angan af þroskuðum rifsberjum og kirsuberjum samofnum eikartónum, kaffi og ristuðum við. Mjög þéttur, tannískur strúktúr, langt og mikið. Þetta er vín sem hæglega mætti geyma í 5-10 ár. Ef flaskan er opnuð nú ætti hiklaust að umhella víninu hressilega til að hjálpa því við að opna sig.

6.480 krónur. Frábært. Reynið t.d. með stórsteik.

Deila.