Muga Reserva 2008

Muga er vínhús í Rioja á Spáni sem löngum hefur haft óformleg tengsl við Ísland enda uppgötvuðu Íslendingar er stunduðu saltfiskviðskipti á Spáni snemma að þarna væri alvöru vín á ferðinni.

Þriðja kynslóð Muga-fjölskyldunnar er nú við stjórnvölinn og framleiðslan er hefðbundin. Muga-vínin eru eikuð mjög. Öll Rioja-vín eru látin liggja á ámum um árabil en fæst vínhús gerja vínin jafnframt á eik. Það gerir Muga, þar er hvergi sjáltank að sjá. Vínhúsið smíðar meira að segja eikartunnurnar sínar sjálft úr við sem fluttur er inn frá Bandaríkjunum og Frakklandi. Ekrurnar eru á svæðinu RIoja Alta og stíllinn klassískur, stundum svolítið Bordeaux-legur, enda rík söguleg tengsl við það hérað.

Reserva 2008 hefur djúpa, þroskaða angan af dimmrauðum og svörtum ávexti, þroskuð kirsuber, sólber. Þarna eru líka áberandi kryddtónar úr eikinni, þægileg vanilla, tóbak, reykur. Fágað, mjúkt í munni. tannín föst en mjúk, langt. Pottþétt matarvín, auðvitað með nautakjöti en reynið líka með mildri villibráð eða hægelduðum lambaskönkum.

3.890 krónur.

Deila.