Andarbringur eru mikill herramannsmatur og í flestum betri stórmörkuðum er hægt að kaupa frosnar bringur, oft bæði íslenskar og franskar.Margir mikla það fyrir sér að elda önd. Það er hins auðveldara en margt annað.
Best er að afþíða bringurnar í ísskáp yfir nótt. Takið þær úr ísskápnum 2-3 klukkustundum áður en þið eldið þær, þannig að þær nái stofuhita.
Hitið ofninn í 200 gráður.
Skerið siðan í bringurnar skinnmegin bæði í gegnum húðina og fitulagið alveg niður að vöðvanum. Á myndinni má sjá annars vegar bringu þar sem að skorinn hefur verið einfaldur skurður og hins vegar tvöfaldur í kross.
Saltið vel með Maldon-salti og nuddið því ofan í rásirnar sem þið eruð búin að skera.
Leggið bringurnar á kalda pönnuna með skinnhliðina niður, kveikið undir á hátum hita og steikið þar til puran er orðin stökk og fín. Snúið þá bringunum við og steikið í 2-3 mínútur á hinni hliðinni. Það er auðvitað hægt að setja bringurnar á heita pönnu en puran verður stökkari með þessum hætti.
Takið bringurnar af pönnunni, setjið í ofnfast form og setjið inn í ofninn í 8-10 mínútur – eða stingið pönnunni sjálfri beint inn í ofn.
Takið út og leyfið bringunum að jafna sig í nokkrar mínútur.Skerið bringurnar í sneiðar. Saltið varlega með Maldon-salti.
Hér eru síðan dæmi um margvíslegt meðlæti og sósur með bringunum.