Ítalsk-amerísk eldhúsið þróaðist í Vesturheimi í samfélagi ítalskra innflytjenda er komu með matarhefðir sínar frá öllum svæðum Ítalíu. Þessar hefðir þróuðust áfram í Bandaríkjunum og tóku oft á sig nýja mynd. Stundum eru réttir ítalsk-ameríska eldhússins eins konar ýkt útgáfa af ítölsku frummyndinni enda allt aðeins stærra og meira vestanhafs. Vinsældir pizzunnar má til dæmis rekja til ítalsk-ameríska eldhússins og sömuleiðis hafa pastasósur á tómatagrunni notið ómældra vinsælda. Það er ekki að ósekju að stundum er talað um þessa matarhefð sem „red sauce kitchen“.
Þessi kjötbolluuppskrift er byggð á uppskrift, svolítiið stíl og staðfærð, frá lítilli sælkerabúð í Little Italy í New York, Di Palo Fine Foods, sem að sjálfsögðu selur heimatilbúnar kjötbollur.
Best er að nota hakkblöndu þar sem 1/2 er nautahakk, 1/3 grísahakk og 1/3 kálfahakk. Nautahakk og grísahakk má yfirleitt fá tilbúið en kálfakjötið verður maður að hakka sjálfur. Það má líka nota nautahakk og grísahakk til helminga.
- 600 g hakk
- 100 g ricotta
- 1/2 dl rifinn parmesan
- 1/2 dl rifinn pecorino
- 2 pressaðir hvítlauksgeirar
- 2 egg
- 1 lúka fínt söxuð steinselja
- 1 tsk þurrkað basil
- 2 brauðsneiðar, skorpan skorin af og sneiðarnar saxaðar í mjög litla bita
- salt og pipar
Blandið öllu vel saman og mótið kjötbollur á stærð við golfkúlur.
Tómatasósan
- 2 dósir niðursoðnir tómatar eða 500 g tómatapassata
- 3 hvítlauksgeirar, fínsaxaðir
- 1 msk basil
- salt og pipar
Byrjið á því að mýkja hvítlaukinn í 2-3 mínútur í olíu. Bætið þá tómötunum og kryddunum á pönnuna og látið malla á vægum hita í um 20 mínútur. Geymið.
Steikið kjötbollurnar í olíu á pönnu, brúnið vel á öllum hliðum í um tíu mínútum. Setjið þær síðan á pönnuna með tómatasósunni og látið malla í henni í 20-30 mínútur eða þar til að bollurnar eru fulleldaðar.
Berið fram með spaghetti. Sáldrið fínt saxaðri steinselju yfir. Hafið nýrifinn parmesan til hliðar. Einfalt og gott ítalskt rauðvín með, t.d. Chianti.