Risotto með kúrbít, pancetta og kjúkling

Þessi uppskrift að risotto er ekki dæmigerð fyrir ítalska eldhúsið heldur dæmi um hvernig hægt er að taka byggja á ítölsku hefðinni og bræða hana saman við ýmislegt annað. Hér notum við til dæmis Mascarpone-ost í staðinn fyrir Parmesan sem gefur því aðra áferð.

Það er tilvalið að nota afganga af kjúklingi sem hefur verið eldaður í ofni daginn eftir og rífa kjötið af beinunum til að nota í réttinn. Ef þið eigið ekki kjúklingaafganga er hægt að nota læri og leggi, krydda að vild og elda í ofni. Rífa síðan kjötið af beinunum.

Pancetta fæst t.d. í sælkeraborðinu í Hagkaup, Kringlunni.

 • 4 dl arborio-hrísgrjón
 • 2-300 g kjúklingakjöt
 • 2 kúrbítar, skornir í litla teninga
 • 75 g pancetta (eða beikon) skorið í teninga.
 • 2 msk ferskt timjan eða 1 msk þurrkað
 • 1 laukur fínsaxaður
 • 3-4 hvítlauksgeirar
 • safi og rifinn börkur af hálfri sítrónu. 
 • 125 g mascarpone
 • 1 lítri kjúklingasoð
 • smjör
 • salt og pipar

Hitið um 2 msk af smjöri á pönnu og steikið kúrbítsteningana í nokkrar mínútur eða þar til að þeir byrja að taka á sig lit. Takið af pönnunni og geymið.

Setjið pancetta-teningana á pönnuna og steikið í nokkrar mínútur. Bætið lauk, hvítlauk og timjan út á pönnuna og veltið um í 2-3 mínútur. Þá er grjónunum bætt út og þeim blandað vel saman við pancetta-blönduna. Leyfið þeim að hitna í 1-2 mínútur og byrjið þá að ausa soðinu út á. Látið soðið rétt þekja grjónin og hrærið reglulega í með sleif til að ekkert festist við botninn. Bætið reglulega soði út. Eftir 18-20 mínútur ættu grjónin að vera tilbúin.

Bætið nú kjúklingnum, kúrbít, sítrónuberki og sítrónusafa. Piprið vel. Leyfið öllu að hitna. Blandið loks mascarpone-ostinum saman við. Takið af hitanum og berið fram.

Með þessum rétti hentar gott Chianti Classico afbragðs vel, t.d. Marchese Antinori.

Deila.