Lamb og indverskar kryddblöndur eiga afskaplega vel saman. Hér er lambafile marinerað í jógúrt-kryddlegi, steikt eða grillað og borið fram með lauk og öðru góðgæti. Fyrir 4 þarf um 6-700 g af lambakjöti.
Kryddlögurinn
- 1 dós grísk jógúrt
- 2 rauðir chilibelgir, fínsaxaðir
- 2 msk rifinn engifer
- 2 tsk cummin
- 2 tsk kóríander
- 2 tsk túrmerik
- 2 tsk reykt paprika
- 4- 5 hvítlauksgeirar, pressaðir
- safi úr einni sítrónu
- 2 tsk Maldon-salt
Blandið öllu sem á að fara í kryddlöginn saman í skál. Hreinsið fituröndina ofan af lambabitunum. Setjið kjötið í marineringuna og geymið í um klukkustund.
Hitið olíu á pönnu. Takið kjötið úr marineringunni og steikið (eða grillið.ca. 4-5 mínútur á hvorri hlið. Takið af pönnunni og geymið í álpappír.
Saxið þrjá lauka. Bætið smá olíu út á pönnuna og steikið laukinn á miðlungshita þar til hann er orðinn mjúkur. Það er gott að setja smá af marineringunni saman við síðustu mínúturnar.
Skerið kjötið í sneiðar og berið fram með lauknum, basmati-hrísgrjónum, raita-sósu og naan-brauði.