Heimalagað rauðvínssoðið rauðkál

Rauðkálið er hægt að útbúa á margvíslega vegu, allt eftir því hvert tilefnið og aðalrétturinn er. Ef rauðkálið er mjög sætt (líkt og til dæmis allt rauðkál sem hægt er að kaupa tilbúið í dós eða krukku) er líka hægt að ganga út frá því sem vísu að rauðvínið með matnum muni lenda í erfiðleikum. Þessi uppskrift leysir það vandamál, annars vegar með því að fara varlega í sætuna og hins vegar með því að elda rauðkálið upp úr rauðvíni. Hér er því komið virkilega vínvænt rauðkál sem hentar vel með t.d. villibráð eða önd. Við mælum með því að steikja rauðkálið upp úr andarfitu, en það er auðvitað líka hægt að nota ólífuolíu.

 • 1 rauðkálshaus, skorinn mjög smátt
 • 2 Granny Smith epli, skorin í bita
 • 2-3 skalottulaukar
 • safi úr 2 appelsínum
 • 0,5 dl gott balsamikedik eða sérríedik
 • 5 dl rauðvín
 • 2-3 timjanstönglar
 • allrahanda
 • kúmen
 • hunang
 • andafita (eða ólífuolía)
 • Maldonsalt og nýmulinn pipar

Hreinsið ysta lagið af rauðkálinu og skerið hvítu „stilkana“ úr. Skerið kálið smátt. Flysjið og kjarnhreinsið eplin og skerið smátt. Saxið skalottulaukana fínt.

Hitið 2-3 msk af andarfitu í þykkum potti eða á pönnu og steikið kálið í rúmar fimm mínútur og bætið þá eplunum og lauknum út í. Steikið áfram í um 5-10 mínútur. Saltið þá og piprið og kryddið með smá allrahanda og örlitlu kúmeni. Farið varlega í að krydda á þessu stigi, betra er að bragða þetta til á síðari stigum en ofkryda strax.

Setjið 2-3 vænar matskeiðar af hunangi út í og hrærið vel saman. Hellið edikinu í pottinn og leyfið því að sjóða niður. Hellið þá rauðvíni og appelsínusafa í pottinn og leyfið þessu að malla á miðlungshita í um klukkustund.

Bragðið til með salti, pipar og allrahanda ef þarf og bætið við hunangi (og jafnvel góðri skvettu af púrtvíni) ef þið viljið hafa rauðkálið sætara.

Deila.