Andarbringur með rauðvínssósu

Öndina er hægt að bera fram á fjölmarga vegu. Hér gerum við rauðvínssósu með andarbringunum og berum fram með rauðkáli og kartöflum.

Fyrir fjóra þarf um tvær andarbringur og allt um það hvernig eigi að elda sjálfar bringurnar getið þið lesið með því að smella hér.

Þegar þið eruð búin að steikja bringurnar og setja þær inn í ofn er gott að hella fitunni sem safnast hefur samaní ílát og geyma. Það er mjög gott að nota hana til steikingar síðar, t.d. á kartöflum.

Þá er komið að sósunni og er gott að gera hana á sömu pönnu og öndin var steikt á.

  • 3 skalottulaukar, saxaðir
  • 0,5 dl balsamikedik
  • 5 dl rauðvín
  • 2,5 dl andarsoð eða nautasoð, heimatilbúið eða úr góðum krafti
  • 2 timjanstönglar
  • smjör

Hitið smá andarfitu á pönnunni og mýkið skalottulaukinn ásamt timjan í nokkrar mínútur. Hellið balsamikediki út á og sjóðið alveg niður í kjarna. Setjið rauðvínið út í og sjóðið niður um 2/3. Setjið soðið út á og sjóðið aftur niður um helming. Síið sósunsa og sjóðið áfram í potti.  Sósan á vera orðin þykk og nokkuð sæt og góð. Ef ekki er bara að sjóða lengur. Bragðið til með salti og pipar. Pískið matskeið af köldu smjöri út í sósuna í lokin.

Þegar andarbringurnar eru búnar að hvíla sig í nokkrar mínútur eftir að þær komu úr ofninum eru þær skornar í þunnar sneiðar og bornar fram með heimalöguðu rauðvínssoðnu rauðkáli og rauðvínssósunni. Einnig er gott að hafa kartöflur með t.d. Pommes Sarladaises eða kartöflukrókettur sem má finna aftast í þessari uppskrift hér.

Með þessu gott franskt rauðvín, t.d. Chateau Pibran eða Tour de Pibran frá Pauillac í Bordeaux.

Deila.