Hefðir og framþróun hjá Riscal

Vínhúsið Marques de Riscal er eitt elsta vínhús Rioja á Spáni, stofnað árið 1858. Þrátt fyrir langa og mikla sögu er það enn í fararbroddi þegar kemur að nýjungum. Jose Luis Muguiro Aznar, eigandi Marques de Riscal, var staddur á Íslandi á dögunum og ræddi við Vínótekið.

Þetta er fyrsta heimsókn Aznar til Íslands en hann segir ljóst að hún verði ekki sú síðasta. Hann er þegar farinn að leggja drög að því að koma hingað síðar í laxveiði. Marques de Riscal er fjölskyldufyrirtæki og segir Aznar að fjölskyldan sé stór og haldi áfram að vaxa en allir hafi sína stöðu innan fyrirtækisins.

Saga Riscal hefur ávallt verið tengd Bordeaux í Frakklandi sterkum böndum. Strax frá upphafi fylgdi vínhúsið „framúrstefnu“ og fékk Jean Pineau frá Chateau Lanessan til að leggja drög að víngerðinni. Hún var auðvitað í anda Médoc og Cabernet Sauvignon gegndi mikilvægu hlutverki. „Það voru vínbændur í Rioja sem tóku sig saman um að fá Pineau til að koma og veita ráðgjöf. Þegar að hann lagði til að vínin yrðu geymd í þrjú ár áður en að þau yrðu sett í sölu sögðu menn hins vegar að hann væri galinn. Riscal ákvað hins vegar að ráða hann sem ráðgjafa og ekki leið á löngu áður en að vínin frá Riscal slógu helstu vínum Frakklands við í keppnum,“ segir Aznar.

Hann leggur áherslu á að Riscal hafi ávallt lagt áherslu á jafnt hefðir sem framþróun. Fyrirtækið hafi verið með þeim fyrstu sem hófu útflutning við upphaf síðustu aldar og hafi Kúba og Mexíkó verið fyrstu markaðirnir.

Við upphaf áttunda áratugs síðustu aldar fór Riscal að horfa til annarra spænskra víngerðarsvæða og staðnæmdist við Rueda og hvítu þrúguna Viura, en það var Emile Peynud,  prófessr við víngerðardeild Bordeaux-háskóla sem hvatti fyrirtækið til þess. Fyrsta vínið kom á markað árið 1972 löngu áður en að augu umheimsins fóru að beinast að Rueda og Viura. Nú er einnig væntanlegt hingað til lands afskaplega ferskt og flott Sauvignon Blanc frá Rueda.

Þá hefur Riscal fjárfest í Castilla y Leon og Toro en þaðan kemur m.a. vínið Riscal 1860, sem fáanlegt er á íslenska markaðnum.

Nýjasta stórfjárfesting Riscal eru kaupin á vínhúsinu Marques de Arienzo. Fyrir átti Riscal 200 hektara af ekrum í Rioja en þeir eru nú orðnir 500 með kaupunum á Arienzo. Alls ræður fyrirtækið yfir um 1000 hektörum af vínekrum á Spáni.

Vínhúsið hefur líka haldið tengslum sínum við Bordeaux en nú er það Paul Pontallier, stjórnandi Chateau Margaux, sem veitir fyrirtækinu ráðgjöf og hefur gert undanfarin 12 ár. Undir hans leiðsögn hefur blanda Riscal-vínanna tekið breytingum og Pontallier er einnig farin að setja mark sitt á vínin frá Arienzo.

Annað risavaxið og spennandi verkefni sem Riscal réðst í er að reisa hótel og veitingahús í kringum víngerðarhúsið í þorpinu Elciego í Rioja Alavesa. Það var ekki ráðist á garðinn þar sem að hann var lægstur heldur ákvað Aznar að reyna að fá bandaríska arkitektinn Frank O. Gehry, sem þekktastur er fyrir Guggenheim-safnið i Bilbao, til að teikna bygginguna.

Gehry heimsótti Riscal í Rioja en var tregur til að skuldbinda sig til að teikna byggingu. Síðasta kvöldið segir Aznar hafa spurt Gehry hvert væri fæðingarár hans. Hann hafi í fyrstu verið hvumsa en síðan greint frá því og hafi hann þó komið með flösku af þeim árgangi á borðið. Það hafi brætt hjarta arkitektsins og hann fallist á að teikna bygginguna. Og þvilík bygging. Verk Gehrys eru ávallt stórbrotin og „vínborgin“ í Elciego er þar engin undantekning en plötur úr þrílitu títaníum gefa henni sterkan svip svo vægt sé til orða tekið í hinu annars hefðbundna byggingarlandslagi Rioja.

Þarna er nú rekið glæsihótel og einn besti veitingastaður Rioja, sem nýlega fékk sína fyrstu Michelin-stjörnu.

Og Aznar eru langt í frá hættur að horfa til framtiðar. Aðspurður um hvar hann muni bera næst niður segir hann það enn óráðið. Hann hafi mikinn áhuga á þrúgunni Albarino og hafi skoðað möguleikana bæði í Rias Baixas í Galisíu og í norðurhluta Portúgal. Líklega verði þó næsta verkefnið í Ribera del Duero og sé leitin hafin að vínhúsi þar til að festa kaup á.

Deila.