Ævintýralegar vinsældir BrewDog bjóranna

Fyrir um sex árum fengu tveir ungir Skotar, þeir James Watt og Martin Dicke lán í banka, brugguðu nokkra bjóra og seldu þá bjóráhugamönnum úr bílnum sínum. Í dag fæst bjórinn þeirra í öllum heimsálfum og þeir reka brugghús þar sem starfa yfir 100 manns. Þá reka þeir 10 bari víðsvegar um Bretlandseyjar og eru að fara að opna þann 11. í Stokkhólmi.

Þetta kann að hljóma eins og lygasaga en svona er uppgangur BrewDog frá því að brugghúsið var stofnað árið 2007. James var þá laganemi en Martin nýútskrifaður bruggmeistari. Bjór og  „craft” bruggmenningin var þeirra aðaláhugamál og þrátt fyrir mikla áhættu ákváðu þeir að láta drauminn um koma á laggirnar sinni eigin bruggsmiðju rætast. Þeir settu stefnuna á bæði skoska og bandaríska bjórstíla og fyrr en varði  voru BrewDog-bjórarnir orðnir gríðarlega vinsælir.

BrewDog félagarnir hafa sífellt reynt að koma á óvart með því að gera bragðgóða bjóra sem og bjóra sem bæði reyna á bragðlaukana og ímyndunaraflið. BrewDog er nú talið meðal fremstu brugghúsa í heiminum þegar kemur að því að setja nýja bjóra á markað og þeir eru einnig duglegir við að reyna að brugga gríðarlega sterka bjóra, en bæði Tactical Nuclear Penguin (32% abv) og Sink The Bismarck (41% abv) hafi vakið gífurlega athygli.

Hér er smá upptalning á þeim BrewDog bjórum sem fást hér á landi en áhugasömum skal bent á að Micro Bar er með mikið úrval af bjórum frá þeim.

Punk IPA

 

Flaggskipið frá BrewDog er tvímælasta bjór að nafni Punk IPA. Hann er India Pale Ale og  5.6% í áfengismagni. Hann er nú orðinn vinsælasti IPA bjór Evrópu og ef eitthvað er  þá er hann enn að bæta í vinsældir sínar um allan heim. Punk IPA er tiltölulega áfengislítill miðað við þennan bjórstíl en engu að síður gríðarlega góður með miklum ávaxtakeim sökum Simcoe og Nelson Sauvin humlanna sem þeir nota í bjórinn.

Vinotek mælir eindregið með að fólk birgi sig upp af þessum bjór en fersk sending var að koma í ÁTVR.

5 AM Saint

5 A.M. Saint er hinn “session” bjórinn þeirra félaga sem fæst hér á landi. Hann er mun mildari en Punk IPA en nýtir samt þennan skemmtilega ávaxtakeim sem humlarnir gefa. Þessi bjór er afar aðgengilegur hér á landi og fæst í flestum af stærstu útibúum ÁTVR.

 

 

 

Riptide

Riptide er þriðji. BrewDog bjórinn sem fæst hér á landi. Hann er þeirra útgafa af Imperial Stout. Hann er í minni kantinum miðað við flesta Imperial Stout eða 8% í áfengismagni. Áberandi kaffi og malttónar einkenna bjórinn sem og örlítið súkkulaði. Það eru undirliggjandi berjatónar sem blandast vel við biturleikann. Hann er býsna frábrugðinnflestum öðrum Imperial Stout en er gríðarlega áhugaverður og góður.

 

 

Hardcore IPA

Síðastur í þessari upptalingu er humlasprengjan Hardcore IPA. Eins og nafnið bendir til að þá er hér um að ræða stóran IPA, eða öllu heldur “double IPA”. Þessi bjór er stóri bróðir Punk og með langt og biturt eftirbragð. Hann bítur ekki bara í bragðlaukana heldur tyggur þá og spýtir þeim svo út. Þetta er magnaður bjórstíll og hafa Brewdog menn gert afar vel heppnaðan bjór.

 

 

 

 

Haukur Leifsson

Deila.