Trivento Golden Reserve Malbec 2011

Luján de Cuyo er eitt af undirsvæðum Mendoza-héraðsins í Argentínu og fyrsta víngerðarsvæði Argentínu sem fékk sína eigin flokkun eða það sem Frakkar myndu kalla „appelation“. Það gerðist árið 1993 og fagnar Lujan de Cuyo því tveggja áratuga afmæli sem afmarkað víngerðarsvæði á þessu ári. Þetta er almennt talið eitt besta undirsvæði Mendoza og þaðan koma Malbec-þrúgurnar sem að Trivento notar í Golden Reserve-línuna.

Gæði Golden Reserve-vínanna eru í raun ótrúleg miðað við verð og ein staðfestingin á því var þegar Wine Advoce, rit Bandaríkjamannsins Robert Parker, gaf 2008 árganginum 94 punkta í einkunn.

Golden Reserve Malbec er dökkfjólublátt á lit, ristaðir kaffitóna og angan af vindlakassa/sedrusvið og leðri streymir upp úr glasinu, sultaður en samt ferskur ávöxtur, plómur og kirsuber, sætur, mjúkur ávöxtur í munni, tannískt og kraftmikið, ristaðir tónar og sæt tóbaksblöð.

Með stórsteikum, grilluðu T-Bone, Porterhouse eða Ribeye. Reynið líka með villibráð.

2.999 krónur. Frábær kaup á því verði.

Deila.