Kartöflusalat með bökuðum kartöflubitum

Kartöflusalat er sívinsælt meðlæti og flestar uppskriftir gera ráð fyrir þvi að kartöflurnar séu soðnar áður en þær fara í salatið. Hér skerum við kartöflurnar hins vegar í bita, kryddum og bökum áður en þær fara í salatið. Það gefur þessu kartöflusalati allt annað yfirbragð en flest önnur. Með því að baka kartöflurnar er sætan í sterkjunnu dregin fram og áferðin verður stökkari og fastari í sér.

  • 1 kg kartöflur, t.d. bökunarkartöflur
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 2-3 skalottulaukar, saxaðir fínt
  • 3 hvítlauksgeirar, saxaðir fínt
  • 1 lúka fínt söxuð (helst flatlaufa) steinselja
  • 1 msk Dijon-sinnep
  • 1 msk vínedik eða balsamikedik
  • paprikukrydd
  • ólífuolía
  • salt og pipar

Skerið kartöflurnar í bita og setjið í skál. Blandið ólífuolíu, um 1 tsk af papriku, salti og pipar út í og blandið vel saman þannig að olían og kryddin þekji kartöflubitana. Setjið bökunarpappír á plötu og dreifið kartöflubitunum um plötuna. Eldið við 200 gráður í ofni í um hálftíma eða þar til að bitarnir eru eldaðir í gegn og hafa tekið á sig góðan lit.

Á meðan hitið þið smá olíu á pönnu og mýkið skalottulaukinn á miðlungs hita í um fimm mínútur. Bætið þá hvítlauknum saman við og eldið laukana áfram í um 2 mínútur. Takið af hitanum og geymið.

bakaðir kartöflubitar

 

Takið kartöflurnar úr ofninum og leyfið þeim að kólna aðeins.

Í skálinni sem að þið ætlið að bera salatið fram í er sýrðum rjóma, sinnepi, ediki og laukunum blandað saman. Hrærið loks kartöflurnar og síðan steinseljunni saman við og bragðið til með salti og pipar.

Berið strax fram, salatið á að vera vel volgt.

 

Fleiri uppskriftir að kartöflusalati má finna hér.

Deila.