Bordeaux-veislan mikla

Corinne Michot var heiðursgestur á Bordeaux-dögum þetta árið en þeir hafa verið árviss viðburður síðasta áratuginn í samvinnu Compagnie Médocaine, Hótel Holts og Globus. Á þessum áratug hafa komið eigendur og fulltrúar nokkurra af þekktustu vínhúsa Bordeaux og leitt veislugesti í gegnum vínin með matnum. Má nefna vínhús á borð við Smith-Haut-Lafitte, Branaire-Ducru, Cheval Blanc, Durfort-Vivens og Cantenac Brown sem dæmi.

Að þessu sinni var komið að því að setja Pichon-Longueville í aðalhlutverk sem er 2éme Cru í Pauillac. Pichon er eitt þeirra húsa sem hefur verið í stórsókn á síðustu árum ekki síst eftir að Christian Seely tók við sem stjórnandi allra vínhúsa AXA – en þess má geta að hann var einmitt meðal fyrstu gesta Bordeaux-dagana. Undir stjórn Seely hefur framleiðslan tekið miklum breytingum. Verulega hefur verið dregið úr framleiðslu á stóra Chateau-víninu og nú eru einungis notaðar þrúgur af þeim hluta ekra Pichon sem liggja hæst (en sá hluti liggur upp að og er að mörgu sambærilegur varðandi aðstæður og ekrur nágrannanna Latour og Las Cases). Stór hluti af þrúgunum sem áður fór í Chateau-vínið fer í staðinn í „annað“ vín hússins, Tourelles de Longueville. Gæði beggja vínanna hafa rokið upp – Tourelles er nú að mörgu leyti sambærilegt að gæðum við Chateau-vínið fyrir rúmum áratug og Pichon er farið að narta í hæla fyrrnefndra nágranna.

Í heimsókn í Pichon fyrr á árinu átti ég þess m.a. kost að smakka þrjá af bestu árgöngum síðustu ára, 2005, 2009 og 2010 og það verður að segjast eins og er að þróunin er sláandi. Öll frábær en 2010 vínið stórkostlegt.

Það voru nokkrir árgangar af Pichon og Tourelles borin fram með matnum á Bordeaux-dögum auk vína frá Chateau Pibran, sem er annað vínhús í Pauillac og sætvín frá Suduiraut í Sauternes og Diznoko í Tokaji. Að auki var í upphafi borið fram þurrt Sauternes-vín, S de Sudiuraut sem er afar sjaldgæft. Að auki var tekið á móti gestum í Viðey með kampavíni úr flöskum sem voru opnaðar með sabrage-aðferðinni, en í henni felst að sveðju er rennt meðfram flöskunni og tappanum (og stútnum) þannig skotið í burtu.

Friðgeir Ingi Eiríksson fór á kostum í eldhúsinu í margrétta máltíð. Hver einasti réttur beint í mark, humar og blálanga með beurre-blanc sósu, mjólkurkálfur með ferskri steiktri foie gras. Frumlegasti rétturinn lambalundir Wellington, einstaklega vel heppnað og frábær leið til að nýta þennan meyra og fína vöðva. Þá nautalundir með massavís af trufflum, ostar og loks unaðsleg kaka úr hvítu súkkulaði með kardimommum og kókos.

Corinne Michot kynnti síðan vínin, meðal annars Tourelles 2005 og Pichon 2008, 2002 og 1996. Einstök upplifun. Michot ólst upp í Loire-dalnum og heillaðist snemma af töfrum vínsins. Hún nam vínþjónafræði í Tours og vakti snemma athygli fyrir hæfni sína. Þegar hún var einungis nítján ára gömul bauð Gérard Basset, sem hefur verið kjörinn besti vínþjónn heims, henni vinnu og hún starfaði undir hans leiðsögn í Bretlandi um árabil. Árið 2004 flutti hún til London og gerðist yfirvínþjónn á veitingastað Angelu Harnett á Connaught-hótelinu, sem rekinn var af Gordon Ramsay, en það var einhver eftirsóknarverðasta staða vínþjóns í heiminum á þeim tíma. Eftir að hafa tekið sér ársleyfi til að ferðast um Asíu árið 2007 flutti hún heim til Frakklands og bauð Christian Seely, forstjóri AXA Millesimes, sem á nokkur af helstu vínhúsum Bordeaux og víðar henni starf við að kynna vín AXA-húsanna víða um heim.

Deila.