Hallveig bloggar: Cassoulet – himneskt innlit til Toulouse!

Fjölskyldan frílistaði sig í París í sumarfríinu í rúmar tvær vikur. Í löngu fríinu var farið á ýmsa góða veitingastaði en þar sem París er ekki ódýrasta borg heims (eða allavega ekki fyrir okkur með þetta hálfgerða Lató-peningakerfi sem er hér í gangi) ákvað ég að hella mér út í smá eldamennsku. Þar eð íbúðin sem ég var í var einstaklega illa útbúin (eigandinn átti ekki einu sinni pipar! Hvernig er þetta hægt.. tut tut) var þessi eldamennska hálfgert afrek! Allavega var þetta í fyrsta sinn sem ég hef þurft að opna niðursuðudós með beittum hníf.

Þrátt fyrir allt gúrmei-ið á stöðunum var fjölskyldan þó sammála því að besti matur ferðarinnar hefði einmitt verið sá heima-eldaði.

Fyrir valinu varð einhver al-franskasti réttur sem til er, suðurfranski pottrétturinn Cassoulet sem byggir á svínakjöti, baunum, ferskum pylsum og niðursoðnum andalærum. Hann höfum við fengið áður hjá systur minni Hildigunni og manninum hennar Jóni Lárusi sem eru einhverjir mestu sælkerakokkar sem ég þekki, en þar sem ég eldaði blöndu af þeirra uppskrift og fleirum, skammast ég mín ekkert fyrir að birta hana hér.

Ég var harðákveðin í því að elda þetta í Frakklandi því þar gæti ég fengið ekta Toulouse pylsur sem fást ekki hér á landi, og mig langaði að vita hvort það gerði einhvern gæfumun. Ég get kannski ekki fullyrt það þar sem rétturinn er líka ljómandi góður með pylsum úr Pylsumeistaranum sem eru ekki ósvipaðar þessari sérstöku pylsu, en mögulega var hann ögn betri!

Uppskriftin miðast við 4, en maturinn dugði okkar 3 manna fjölskyldu í tvær máltíðir.

ATH! ef þið eigið ekki allt ferska kryddið má vel setja 2 þurrkuð lárviðarlauf og örlítið þurrkað timian í stað bouquet garni. Þá væri ekki verra að saxa smá steinselju yfir í lokin.

Cassoulet:

 • 400 gr svínakjöt í bitum
 • 1 dós haricots blancs (smjörbaunir), vökvanum hellt af
 • 1 dós niðursoðnir hakkaðir tómatar
 • 1 dós tómatpúrra
 • Mirepoix: 1 meðalstór laukur, 1 gulrót og einn sellerístöngull smátt saxað
 • 5 hvítlauksrif smátt söxuð
 • 100 gr chorizopylsa smátt söxuð
 • 5 negulnaglar, muldir
 • salt og pipar
 • búnt af bouquet garni (fersk steinselja, timian og lárviðarlauf bundið saman)
 • eitt glas af hvítvíni
 • toulouse pylsur, ein á mann, skornar í stóra bita. Ef þið notið minni pylsur má hafa þær í heilu lagi. (Hér mætti nota ferska ítalska pylsu eða kielbasa, þær hafa báðar fengist hjá Pylsumeistaranum Laugalæk)
 • lítil dós af confit du canard, niðursoðnum andalærum (lítil dós rúmar 2 læri, stór 4.)

Opnið confit de canard dósina og nælið ykkur í góðan slatta af andafitunni sem er í dósinni og steikið lauk,  gulrót og sellerí við lágan hita í nokkrar mínútur í góðum potti sem má fara í ofn. Steikið hvítlaukinn með síðustu mínútuna. Fjarlægið grænmetið og brúnið svínakjötið í pottinum úr aðeins meiri andafitu, saltið það og piprið.

Bætið svo grænmetinu aftur út í ásamt baununum, tómatdósinni, tómatpúrrunni, chorizopylsunni, negulnöglunum, hvítvíninu og ferska kryddbúntinu og bætið vatni við svo rétt fljóti yfir.  Sjóðið við lágan hita í 60 mínútur. Hitið ofninn á meðan að 180°.

Þegar stutt er eftir af suðutímanum þarf að steikja pylsurnar létt í meiri andafitu og úrbeina andarlærin.

Þegar suðutíminn er liðinn fjarlægið þá kryddbúntið, setjið pylsurnar og öndina saman við kássuna og hitið í ofninum í hálftíma.

Berið fram með góðu brauði, ég myndi mæla með súrdeigsbaguette frá Sandholti.

Deila.