Laherte Fréres Blanc de Blancs Brut Naturel

Flest kampavínanna sem hér eru seld eru frá stóru kampavínshúsunum, hinna svokölluðu Grand Marques, eins góð og stundum frábær þau geta verið er alltaf ánægjulegt að sjá líka vín frá minni framleiðendum, litlu fjölskyldufyrirtækjunum sem að alls staðar er að finna í Champagne en rata sjaldan hingað heim þar sem að framleiðslan er ekki mikil í magni.

Laherte Fréres er fjölskyldufyrirtæki sem ræktar vínekrur sinar í Coteaux Sud d’Epernay. Hinn þrítugi Aurelien Laherte sem sér um vínræktina hefur smám saman verið að færa ræktunina yfir í lífræna og lífeflda ræktun líkt og svo margir smærri jafnt sem stærri vínframleiðendur í Frakklandi.

Þetta kampavín er Blanc de Blancs það er að segja kampavín þar sem að einungis hvítar Chardonnay-þrúgur eru notaðar. Að auki er það flokkað sem Brut Nature, það er engri sætu er bætt við. Það freyðir vel og fallega. Fíkjur í nefi, þroskuð epli og eldspýtustokkur, kex, ger, þroskað yfirbragð, nokkuð eikað bragðmikið, þurrt, mikil fylling flott kampavín.

6.590 krónur. Góð kaup.

Deila.