Foie Gras snittur með púrtvíni

Foie Gras er eitthvert mesta góðgæti sem Frakkar þekkja, feit og unaðsleg gæsa- eða andalifur. Yfirleitt er hún seld niðursoðin, annaðhvort heil eða maukuð í kæfu. Foie Gras er hægt að nota á margvíslega vegu. Það er til dæmis tilvalið að smyrja henni á sneiðar af niðurskornu baguette-brauði. Það þarf í sjálfu sér ekki mikið meira en hér er dæmi um hvernig hægt er að breyta slíkum snittum í glæsilegan „amuse bouche“ með fordrykknum.

Skerið brauðið í þunnar sneiðar og hitið í ofni þar til að þær  byrja að verða stökkar.

Sjóðið niður ca 1-2 dl  púrtvín þar til að það hefur þykknað vel. Ef það þykknar of mikið er alltaf hægt að bæta smá skvettu við.

Smyrjið sneiðarnar með foie gras. Setjið sultu ofan á, t.d. heimagerða rifsberjasultu og loks um teskeið af púrtvíns-kraftinum. Loks örlítið af nýmuldum pipar og sjávarsalti.

Berið fram með t.d. kampavíni eða góðu Pinot Gris frá Alsace. Sauternes er auðvitað líka ávallt fullkomið með Foie Gras.

Fleiri smárétti sem henta vel með fordrykknum má finna með því að smella hér. 

Deila.