Marchese Antinori Chianti Classico 2010

Það er alltaf ákveðinn söknuður í því þegar að góður árgangur hverfur í hillunum en oft er það nú líka þannig að það tekur bara annar góður við. Þetta á við um Marchese Antinori þar sem að 2010 árgangurinn hefur nú leyst 2009 af hólmi. Vínið er Chianti Classico frá Toskana, blanda úr 90% Sangiovese og 10% Cabernet Sauvignon, ekki ósvipuð blanda og í víninu Tignanello (þar sem Cabernet hlutfallið er þó yfirleitt örlítið hærra) og vissulega má greina ákveðin samhljóm með þessum tveimur Antinori-vínum í stílnum.

Eins og gefur að skilja er 2010-vínið enn nokkuð ungt, það borgar sig að geyma það í einhvern tíma eða að minnsta kosti umhella einhverjum stundum áður en það er borið fram. Það er nokkuð dökkt á lit, eik áberandi í nefi, kaffi, mokka og reykur í bland við kröftugan, kryddaðan kirsuberjaávöxt. Kröftug tannín í munni, vínið höfugt, svolítið míneralískt, langt og rismikið. Reynið með nautakjöti, lambi eða villibráð.

3.599 krónur. Mjög góð kaup.

Deila.