Franskar pönnukökur – Crepes með skinku og osti

Götufæði eða „street food“ hefur verið mikið í tísku. Oftast er þar horft til asíska götufæðisins en við skulum ekki gleyma hinu evrópska. Dæmigert franskt götufæði eru pönnukökur eða crepes sem að bakaðar eru af götusölum í öllum helstu borgum og hægt er að fá bæði með sætri fyllingu eða þá með t.d. klassískri skinku og ostafyllingu.

Fyrst gerum við pönnukökudeigið.

  • 6 dl  hveiti
  • 5 dl mjólk
  • 1,5  dl vatn
  • 5 egg
  • 1 msk matarolía
  • 1/2  tsk salt

Þeytið vel saman þar til deigið er orðið slétt. Látið standa í um 15 mínútur fyrir bakstur. Þetta gerir um 6-8 pönnukökur eftir stærð pönnunnar. Pannan þarf að vera stærri en hefðbundin íslensk pönnukökupanna, t.d. 12 tommur.

Í fyllinguna þarf svo:

  • egg
  • ost
  • skinka

Það hvaða ostur og hvaða skinka er notuð hefur auðvitað töluverð áhrif á útkomuna. Við mælum með því að nota Búra.

Hvað skinkuna varðar þá verður að segjast eins og er að skinkugerð er ekki sterkasta hlið íslenskra kjötvinnslna, svo vægt sé til orða tekið. Í betri sælkeraborðum (t.d. Hagkaup Kringlunni, Ostabúðinni Skólavörðustíg etc) má fá innflutta skinku, bæði þurrkaða og soðna sem hægt er að fá niðursneidda. Auðvitað má nota þurrkaða skinku á borð við Parma eða Serrano en soðin skinka (prosciutto cotto) er okkar uppáhald í þessu tilviki. Hafið sneiðarnar frekar þykkar.

Þá þarf um 1/2 egg á hverja pönnuköku. Hafið það tilbúð pískað í skál eða bolla þegar að þið steikið pönnökökuna.

Þá er komið að því að gera pönnukökurnar. Hitið smjör á pönnu á nokkuð háum hita. Setjið deig á pönnuna og veltið því um þannig að það þekji alla pönnuna. Þegar pönnukakan er tilbúin öðrum megin er henni snúið við. Hellið næst pískaða egginu yfir og dreifið úr því með sleif eða með því að velta pönnunni. Leyfið egginu að eldast í smástund, kannski hálfa mínútu eða rúmlega það. Raðið næst ostasneiðum á annan helming pönnukökunnar. Þegar að hann byrjar að bráðna sem tekur hálfa til eina mínútu er skinkusneiðunum raðað ofan.

Brjótið næst pönnukökuna í tvennt og svo aftur í tvennt. Berið strax fram og byrjið á næstu.

 

Deila.