Hildigunnur bloggar: Andalæri í hunangskarrísoði

Fyrir nokkrum vikum rákumst við á frosin andalæri í Melabúðinni. Stukkum á þau, það er því miður enginn andabóndi á landinu núna (leiðréttið mig endilega ef það hefur breyst) og svona sælgæti er ekki auðfáanlegt. Ákváðum að elda annan tveggja pakka á páskadag. Í honum voru sex læri með leggjum.

Þessi matur þarf frekar langa eldun.

Í réttinn fóru:

6 andalæri
1 kíló kartöflur
salt
pipar
1 tsk karrí
1 msk hunang
1/2 lítri andasoð (eða kjúklinga)

Byrjið á því að hita ofninn í 200°C Skerið kartöflurnar niður í frekar stóra bita. Brúnið síðan andalærin á pönnu eða í potti, ætti ekki að þurfa neina feiti. Raðið lærunum í djúpt eldfast fat, hellið kartöflubitunum inn á milli. Það á að vera þröngt um kjöt og kartöflur (athugið ef þið minnkið uppskriftina að nota þá fat sem er lítið um sig en þó djúpt). Saltið og piprið frekar vel.

Setjið fatið í ofninn og steikið í tvær klukkustundir. Gott er að kíkja af og til á matinn og hræra aðeins upp í kartöflunum til að þær efstu brenni ekki og snúa lærunum við þannig að ekki sé alltaf sami hlutinn af þeim sem stendur upp úr feitinni. Því fatið fyllist væntanlega af feiti, það rennur mikið af lærunum.

Þegar um kortér er eftir, veiðið eina ausu af feitinni í pönnu, steikið karríið smástund, hellið soðinu og karríinu saman við og látið sjóða niður um u.þ.b. helming. Takið fatið úr ofninum, veiðið önd og kartöflur upp úr feitinni, setjið á fat og dreypið hunangskarrísoðinu yfir.

Endilega ekki henda feitinni sem myndast, hún er gríðargóð steikingarfeiti.

Við drukkum gott freyðivín með, en bæði hvítvín og rauðvín passar vel með þessum mat.

Deila.