Hildigunnur bloggar – Boeuf á la bourguignon

Elsti unglingur tilkynnti í kvöld að þessi réttur væri eins franskur á bragðið eins og þeir yrðu. Ég er ekki frá því að vera sammála.

Það eru til mjög margar útgáfur af bourguignon og ólíkar. Svipað og af tagliatelle bolognese (þar sem ég til dæmis er gríðarlega ósammála síðueiganda hér og á örugglega eftir að pósta uppskriftina frá slátrararnum frá Bologna sem við hittum úti og neitaði að selja okkur meira beikon en við þyrftum fyrir uppskriftina).

Hér er allavega okkar aðferð. Hún er ekki sú sama sem Julia Child notar…

1.5 kíló nautagúllas (má vera kálfa en nauta gefur fyllra bragð)
hveiti til að hrista
250 g beikon í bitum
salt og nýmalaður pipar, ég nota hvítan en svartur er fínn
Bouquet garni (steinselja, lárviðarlauf, timjan bundið saman. Nota oft þurrkað timjan en bind saman steinselju og lárviðarlauf)
50 g smjör
500 g smáir sveppir (ef stærri þá skornir í ferninga)
500 g perlulaukur (ég notaði perlurauðlauk en það þarf ekki)
1 flaska búrgundarvín (eða annað pinot noir eða gamay vín – bara ekki nota vont vín, mikilvægt)

Hristið kjötið saman við hveitið. Steikið beikonið í 5-6 mínútur í potti/pönnu með þykkum botni, bætið kjötinu við og steikið þar til það hefur tekið fallegan lit. Kryddið með salti og pipar, setjið kryddvöndinn út á og hellið víninu rólega yfir þar til kjötið er komið í kaf. Leyfilegt er að hella afganginum í glas og drekka meðan réttinum er leyft að malla við vægasta hita sem vélin leyfir undir loki í klukkustund.

Afhýðið laukana. Það tekur óratíma þannig að það er ágætt að byrja á því (með rauðvínsglasið) strax og kjötið er komið yfir. Hitið smjörið í þykkbotna pönnu og steikið laukinn og sveppina í 5 mínútur við meðalhita, hrærið oft. Setjið saman við kjötið í vínleginum og sjóðið annan klukkutíma undir loki.

Mér finnst best að hafa gott snittubrauð og smjör með en hrísgrjón eða kartöflur ganga fínt líka.

Deila.