Haukur Heiðar: Sumarbjórs umfjöllun #1: Ölvisholt Ship-A-Hoj Hoppy Wheat Beer

Ölvisholt hafa undanfarin 2 ár minnt rækilega á sig sem eitt besta brugghús landsins. Vinsældir Lava eru orðnar miklar vestanhafs og einnig hafa þeir átt afar vel heppnaða sumarbjóra undanfarin ár. Röðull IPA átti t.d. miklum vinsældum að fagna fyrir ári síðan.

Árið í ár er engin undantekning og enn og aftur sýnir Árni Long, bruggmeistari Ölvisholts, að hann er einn besti bruggari landsins. Ship-O-Hojj er mjög humlaður hveitibjór. Hann er einnig sérstakur að því leytinu til að hann er gerjaður með sama “farmhouse” gerinu og Skaði, húsgerinu frá Thiriez brugghúsinu í Frakklandi. Hann er því þurr en humlarnir gefa honum frábært jafnvægi. Bjórinn á sér fyrirmyndir en margar bruggsmiðjur í bæði Belgíu og Bandaríkjunum hafa gert tilraunir með mjög humlaða hveiti bjóra. Það er því frábært að sjá Ölvisholt hugsa út fyrir rammann og koma með skemmtilegt afbrigði af hveitibjór. Þess má geta að þennan bjór má einnig geyma þrátt fyrir mikla humla en gerið mun gefa honum afar skemmtilegan og fínlegan “karakter” með tímanum.

Í glasi er hann fallegur, hann er skemmtilegur á litinn, sem er nánast út í appelsínugult. Í nefi er hann ávaxtaríkur, með örlitlum furukeim, sítrónuberki og háalofti. Á tungu er hann svalandi og léttur miðað við áfengisstyrk, sem er 7%, með bitrum humlakeim sem blandast vel við mikla ger “karakterinn” sem er að finna í bjórnum. Hér er farið vel út fyrir rammann. Hreint útsagt frábær bjór.

Deila.