Bordeauxvín í Fríhöfninni

Það nýta margir sér það þegar að þeir fara í gegnum Fríhöfnina á Keflavíkurflugvelli að kippa með nokkrum flöskum af góðu víni enda oft hægt að gera ágætis kaup. Það er leyfilegt að taka með fjórar flöskur af léttvíni inn í landið og um að gera að nýta sér það. Nú nýlega hafa til dæmis verið að bætast við nokkur ný Bordeaux-vín í úrvalið. Ekki vín í allra efsta verðflokki heldur flott vín í milliflokki sem að gefa mikið fyrir peninginn.

Vínotekið smakkaði nokkur mjög athyglisverð Bordeaux-vín sem eingöngu eru enn sem komið er fáanleg í Fríhöfninni. Líkt og ávallt tekur stjörnugjöfin mið af gæðum vínsins í hlutfalli við verð þess.

Chateau la Verriére 2012

Chateau la Verríere er vínhús í eigu Bessette-fjölskldunnar á svæðinu milli fljótanna Garonne og Dordogne, flokkað sem Bordeaux Superieur sem að franska vínpressan hefur hrifist mikið af. Blandan er Merlot að mestu leyti (70%) en einnig Cabernet Sauvignon (20%) og Cabernet Franc. Þétt og fínt, þykkur,  ferskur og fínn ávöxtur,  piprað með vel samofinni eik. Kröftug en mjúk tannín munni, langt og þétt. Virkilega vel gert vín í þessum verðflokki. Eiga það öll sameiginlegt að vera vel drykkjarhæf núna (þó að umhelling borgi sig) en má jafnframt geyma í 2-3 ár.

1.999 krónur

La Croix-Bonis 2011

La Croix-Bonis er vínhús á vinstribakkanum,  á Médoc-skaganum, nánar tiltekið við þorpið St-Estéphe norður af Pauillac.  Þrúgurnar koma af ekrum eins þekktasta vínhús svæðisins, Chateau Phelan-Ségur og  blandan er Cabernet og Merlot til helminga. Dökkt, eik áberandi í nefi, sólber, míneralískt, leður. Í munni ferskt, með góðri sýru og tannískt. Klassa Médoc-vín.

3.999 krónur.

Chateau de Valois 2009 

Chateau de Valois er vínhús á hinu litla og eftirsótta svæði Pomerol. Vínhúsið varð til árið 1862 þegar að ekrur hins þekkta Chateau de Figeac (sem er á mörkum Pomerol og St. Emilion) voru endurskipulagðar og bútaðar niður. Blandan 83% Merlot og 17% Cabernet Franc. Þetta er nokkuð mikið vín, dýpt í lit og nefi, ávöxturinn farinn að sýna örlítinn þroska, skógarber, plómur, vindlakassi og reykur í nefi. Þykkt, kröftugt með nokkurri eik og mjúkum tannínum.

5.699 krónur

Chateau Haut-Gravet „Cuvée La Croix Fourche“ 2010

Chateau Haut-Gravet  „Cuvée La Croix Fouche´“ er vín frá hinu magnaða Haut-Gravet flokkað sem Saint- Emilion Grand Cru Classé. Vínið kemur af lítilli 10 hektara ekru með grýttum jarðvegi og gömlum vínvið. 2010 var „stór“ árgangur í Bordeaux og vínið er enn ungt, dökkt og ágengt. Þroskuð dökk ber, fjólur og krydd í bland við reyk, vanillu úr þykkri eikinni. Tannín mjúk, reykur og tjara renna saman við ávöxtin í munni.

3.999 krónur

Chateau Saint-Marie le Moulin 2012

Chateau Saint-Marie var lengi í eigu klaustursins La Sauve Majeure en var keypt af Dupuch-fjölskyldunni á sjötta áratug síðustu aldar. Næsta kynslóð Dupuch-fjölskyldunnar heldur nú um taumana. Vínið er aðallega Merlot (72%) blandað Cabernet Sauvignon. Dökkt og ungt, ferskur ávöxtur, fyrst og fremst rauð ber og bláber, mild eik, örlítið kryddað. Ávaxtaríkt í munni, þétt, fersk sýra og tannín. Þarf tíma til að opna sig.

1.679 krónur. Frábær kaup á því verði.

Deila.