Kokteilar með tvisti á Barber Bar

Barber Bar eða Rakarabarinn er ein nýjasta viðbótin í barflóru miðborgarinnar, glæsilegur bar á hinu nýja Hótel Öldu við Laugaveg 66-68. Nafnið er ekki alveg úr lausu lofti gripið því við hlið barsins er forláta rakarastofa af gamla skólanum þar sem hægt er að fá gamaldags rakstur jafnt sem nútíma hárgreiðslu.

Barþjónarnir á Barber Bar þeir Víkingur Kristjánsson og Sveinn Rúnar Einarsson leggja mikið upp úr kokteilum og þeir settu saman þrjá glæsilega kokteila fyrir okkur. Allir þrír eiga það sameiginlegt að vera klassískir kokteilar frá Bandaríkjunum með langa sögu sem þeir félagarnir hafa sett smá „tvist“ á og bera fram í nýjum búning.

Kokteilarnir sem að þeir völdu eru í fyrsta lagi Old Fashioned, sem að mörgu leyti er „móðir“ allra kokteila, einn af hinum upprunalegum kokteilum frá byrjun nítjándu aldar sem settir hafa verið fram í óteljandi myndum síðan. Útgáfu þeirra af Old Fashioned má sjá með því að smella hér. Við köllum hana Old Fashioned BBQ enda er bitterinn sem er notaður Barbeque Bitter.

Rob Roy er svo annar nitjándu aldar kokteill sem upphaflega kemur frá Waldorf Astoria-hótelinu í New York. Í stað þess að nota skoskt viský eins og í upprunalegu útgáfunni settu þeir á Barber Bar japanskt viský í kokteilinn. Uppskriftina af Rob Roy-San má sjá hér.

Þriðji kokteilinn er loks hinn sívinsæli Cosmopolitan og má sjá uppskriftina af Cosmopolitan frá Barber Bar hér.

Deila.