Ítalskt páskalamb

Lambakjöt er víða tengt páskunum og það á t.d. við um Ítalíu. Það eru til margar suður-ítalskar uppskriftir af lambalæri eða Cosciotto di Agnello er eldað í stórum potti í ofni sem annað hvort eru bornar fram á Pasqua (páskadag) eða „litlu páskunum“ Pasquetta (öðrum í páskum).

Það sem við þurfum fyrir lærið er eftirfarandi (magn eftir stærð læris):

  • lambalæri
  • rósmarín
  • pancetta
  • hvítlaukur
  • hvítvín
  • ólífuolía

Skerið pancetta niður í litla bita, svipuðum eldspýtum að þykkt. Skerið raufar í lambalæri og og þrýstið pancetta-bita, rósmarín og hvítlauksgeira (heilum eða hálfum eftir stærð) inn í hverja rauf. Smyrjið lærið með ólífuolíu. Kryddið lærið vel með salti, pipar og söxuðu rósmarín.

Best er að elda lærið í stórum ofnpotti, t.d.pottjárnspotti. Byrjið á því að hita olíu í pottinum og brúnið lærið allan hringinn. Hellið 1-2 dl af hvítvíni í pottinn og setjið inn í 200 gráðu heitan ofn. Eldið í um 40 mínútur á hvorri hlið.

Það er mjög gott að bæta við kartöflum sem er búið að flysja og skera í bita þegar lærinu er snúið við. Bæta við smá skvettu af hvítvíni ef þarf og elda kartöflurnar með lærinu síðari 40 mínúturnar. Það má líka setja saxaðan lauk og 1-2 stangir af rósmarín með. Þá má strá smá saxaðri steinselju yfir lærið þegar því hefur verið snúið við.

Eldunartíminn getur verið breytilegur eftir stærð lærisins. Skerið aðeins í það og athugið hvort það sé tilbúið eftir um 1,5 klukkustund og metið hversu lengi í viðbót það þurfi að vera í ofninum.

Leyfið lærinu að standa í 5-10 mínútur eftir að það er tekið úr ofninum. Sneiðið niður og berið fram með kartöflunum og góðu rauðvíni.

Fleiri uppskriftir af páskalambinu finnið þið með því að smella hér. 

 

Deila.