Grillað lambalæri með basil og lime-jógúrtsósu

Þetta er sumarleg uppskrift að grilluðu og úrbeinuðu lambalæri sem er marinerað í appelsínusafa, kryddjurtum og hvítlauk áður en það er grillað. Með kjötinu höfum við  bragðmikla jógúrtsósu með basil og lime.
En fyrst er það kryddlögurinn fyrir úrbeinað lærið:

  • 1 dl ólifuolía
  • rifinn börkur af einni appelsínu
  • safi úr 1/2 appelsínu
  • 10 pressaðir hvítlauksgeirar
  • 2 msk fínt saxað ferskt rósmarín
  • 2 msk ferskt timjan
  • salt og pipar

Blandið saman. Látið kjötið liggja í marineringunni í að minnsta kosti eina  til tvær klukkustundir. Gjarnan lengur, þess vegna yfir nótt í ísskáp.

Grillið og berið fram með jógúrtsósunni. Munið að leyfa kjötinu að jafna sig í 5-10 mínútur eftir að það er tekið af grillinu.

Basil- og lime-jógúrtsósa

  • 1 dós grísk jógúrt
  • rifinn börkur af 1 lime
  • pressaður safi úr 1 lime
  • 1 lúka basil
  • 1/2 lúka mynda
  • 1 msk rifinn engifer
  • 3-4 hvítlauksgeirar
  • 1 rauður chilibelgur
  • salt

Setjið allt i matvinnsluvél og maukið vel saman. Bragðið til með salti. Ef þið viljið milda sósuna er gott að fræhreinsa chilibelginn áður en hann er maukaður. Það er gott að gera sósuna að minnsta kosti klukkustund áður en hún er notuð til að brögðin nái að blandast vel saman.

Með þessari samsetningu þar nokkuð kröftugt rauðvín, t.d. flottan Cabernet Sauvignon frá Chile á borð við Montes Alpha.

Deila.