Kjúklinga Curry kölska

Kölska-kjúklingur eða „Pollo al Diavolo“ er amerísk-ítalskur réttur (uppskrift af þeirri útgáfu finnið þið með því að smella hér) sem nýtur mikilla vinsælda og dregur nafn sitt af hinu mikla chili-magni í réttinum sem gerir hann ansi heitan. Það á ekki síður við um þessa suðaustur-asísku útgáfu af kölska-kjúklingi frá Singapore. Þessi útgáfa er millisterk. Það er hægt að milda hana með því að taka fræin innan úr chili-belgjunum og gera réttinni heitari með því að bæta við chili.

 • 1 kg kjúklingalæri eða bringur
 • 3 rauðir chilibelgir
 • 3 þurrkaðir chilibelgir (mýkið í vatni)
 • 1 laukur, saxaður
 • 50 g engifer, saxað
 • 1 stilkur af ´sítrónugrasi, saxað
 • 4 hvítlauksgeirar, saxaðir
 • paprika, gul, appelsínugul og rauð, söxuð
 • spergilkál
 • 1 dós kókosmjólk
 • 2 msk edik (asískt helst)
 • 2 tsk sykur
 • 1,5 tsk sinnepsduft
 • matarolía
 • salt og pipar

Takið 1/4 af kókosmjólkinni frá og blandið með vatni í hlutföllunum 1 af kókosmjólk á móti 4 af vatni. Geymið.

Maukið ferskan og þurrkaðan chili, lauk, hvítlauk, engifer og sítrónugras í matvinnsluvél. Þetta á að verða fínt mauk, setjið 1-2 tsk af vatni með ef þarf.

Saltið og piprið kjúklingalærin. Hitið olíu á pönnu (gjarnan wok-pönnu). Setjið maukið á pönnuna og steikið á miðlungshita í 3-4 mínútur, hellið aðeins af vatnsþynntu kókosmjólkinni saman við og steikið áfram þar til að olían byrjar að skilja sig. Bætið næst sinnepsdufti, sykri, ediki og smá salti saman við ásamt afganginum af vatnsþynntu kókosmjólkinni. Leyfið suðu að koma upp og bætið þá kjúklingabitunum saman við. Leyfið suðunni að koma upp aftur og setjið lok yfir pönnuna. Látið kjúklinginn krauma undir loki í rúmar 10 mínútur og hellið þá kókosmjólinni ásamt um 2 dl af vatni út á. Látið malla í 40 mínútur án loks. Þegar 3-4 mínútur af eldunartímanum eru eftir er papriku og spergilkáli blandað saman við.

Berið fram með hrísgrjónum.

 

Deila.