Faustino I Gran Reserva 2005

Fyrstu kynni margra af vönduðum spænskum rauðvínum hafa eflaust verið Faustino-vínin í hrímuðu flöskunum með víranetinu utanum flöskuna og mynd af spænskum aðalsmanni fyrri alda á flöskumiðanum. Faustino er enn helsti útflytjandi Rioja-vína og Gran Reserva-vínið  eða Faustino Primoer er frábært dæmi um mikilfengleika hins klassíska stíls héraðsins.

Vínið sem nú er í boði er frá 2005 árganginum, sautján ára gamalt og mun eldra en Gran Reserva-vín frá öðrum vínhúsum sem hér fást. Og það er hér sem Faustino blómstrar, þetta eru vín sem þurfa langan tíma til að ná að renna saman í vel þroskað, djúpt og margslungið vín. Liturinn er smám saman að færast út í múrsteinsrautt, angan er þétt með við, jólaköku og kryddum, vanillu og negul, bragðið er djúpt og langt, vínið er þykkt, tannín einstaklega staðföst og þétt.

3.998 krónur. Frábær kaup, frábært klassískt Rioja. Með hægelduðu Ribeye, gjarnan á beini.

  • 9
Deila.