Louis M. Martini Napa Valley Cabernet Sauvignon 2013

Þrátt fyrir ágætt úrval í vínbúðunum hefur maður oft saknað þess hversu lítið er til af bandarískum vínum en góð vín þaðan eru alla jafna með þeim bestu sem hægt er að fá í heiminum. En þau geta líka verið svakalega dýr. Það er því ánægjulegt að fá hér ekki bara virkilega, virkilega flott vín frá Napa í Kaliforníu heldur lika á verði sem er virkilega hagstætt miðað við góð vín frá þessu rándýra svæði og það frá flottum framleiðanda.

Þetta er að mörgu leyti klassískur Napa Cabernet, dökk og þroskuð sólber, þykk, safarík, allt að því þurrkuð og krydduð, vindlakassi, sætur sedrusviður í bland við tóbakslauf, silkimjúk tannín er nokkuð kröftug. Þetta er ekki eitt af þessum risavöxnu Napa-vínum sem kosta formúur, þetta er eins konar alþýðuútgáfu af toppvínum Napa, einstaklega ljúffengt og flott. Mögnuð kaup.

100%

3.798 krónur. Frábær kaup, vínið lækkar meira að segja í verði milli ára. Með öllu góðu kjöti, t.d. nauti og hreindýri.

  • 10
Deila.