Luis Canas Reserva 2011

Luis Canas er ekki eitt af stærstu vínhúsunum í Rioja en eitt af þeim sem enginn ætti að láta fara fram hjá sér. Fyrst rákumst við á þetta á góðum veitingastað í  Salamanca-hverfinu í Madrid þar sem að þjónninn var beðinn um að sýna fram á eitthvað sérstakt frá Spáni. Þá vakti það athygli að þetta sama var eina vínið sem að þeir Ferran-bræður  Adrien og Albert höfðu valið frá Rioja þegar að við heimsóttum staðinn þeirra Tickets í Barcelona.  Reserva-vínið frá Luis Canas sem nú er fáanlegt í vínbúðunum er allt að því fullkomið í sínum verðflokki, að minnsta kosti er erfitt að ímynda sér mikið betra Rioja fyrir þetta verð. Ávöxturinn er djúpur, karaktermikill, rauð ber og kirsuber,þykkur og safaríkur, saman við þetta allt rennur eikin fyrirhafnarlítið með súkkulaði og kókos, vínið hefur þurrt, míneralískt yfirbragð en er líka feitt og þykkt og ferskt. Tikkar í öll box. Frábært matarvín.

100%

2.699 krónur. Frábær vín og frábær kaup. Með hreindýri, lambi og auðvitað góðum nautasteikum þar er Rioja á heimavelli.

  • 10
Deila.