Nino Negri Le Tense Sassella 2013

Valtellina er svæði sem að við höfum ekki séð mikið – ef þá nokkuð af hér á landi. Að minnsta kosti rekur okkur ekki minni til þess að þaðan hafi áður verið fáanleg vín. Nú eru hins vegar fáanleg, að minnsta kosti í sérpöntun, nokkur vín frá einum besta framleiðanda svæðisins, Nino Negri.

Svæðið Valtellina er í norðurhluta Ítalíu norður af Mílanó og Lago di Como. Það eru aðallega rauðvín ræktuð í Valtellina og þá úr þrúgunni Chiavennasca sem flestir þekkja örugglega betur undir öðru nafni eða Nebbiolo. Le Tense er hreint Chiavennasca-vín frá undirsvæðinu Sassella. Vínið er dimmrautt, farið að sýna þroska í lit, angan af þroskuðum berjum, hindberjum, kirsuberjum, plómur en líka blómaangan, það er töluvert kryddað, þarna má finna kanilstöng, súkkulaði, eikað, mjög þétt í munni, fín og fersk sýra, elegant og lipurt.

90%

3.399 krónur. Frábær kaup. Nebbiolo-vín eru frábær matarvín, þetta vín er tilvalið með mildri villibráð, s.s. gæs, osso buco eða t.d. risotto með villisveppum.

  • 9
Deila.