E. Guigal Chateau d’Ampuis 2015

Chateau d’Ampuis var upphaflega byggt sem virki á þrettándu öld en var síðar breytt í fallegan kastala í renaissance-stíl. Það er staðsett í þorpinu Ampuis við bakka Rhone og með hinar tignarlegu ekrur Cote Rotie í baksýn. Guigal-fjölskyldan festi kaup á kastalanum árið 1995 en þá hafði hann verið í niðurníðslu um nokkurt skeið. Gífurleg vinna var lögð í endurnýjun og í dag eru þarna höfuðstöðvar Guigal og heimili.

Við fjölluðum með ítarlegri hætti um Guigal eftir heimsókn þangað fyrir nokkrum árum sem lesa má um hér.

Vínið sem kennt er við Chateau d’Ampuis er gert úr þrúgum af sjö af bestu ekrum Guigal á Cote Blonde og Cote Brune-svæðunum. Þetta er blanda úr Syrah (93%) og Viognier og vínið liggur í rúm þrjú ár á tunnu fyrir átöppun. Einungis eru framleiddar 30 þúsund flöskur árlega. Liturinn er dökkur og djúpur, vínið gífurlega þétt og tannískt, reykur, dökkt súkkulaði og núggat í nefi, krydd, nýmulinn pipar ávöxturinn þroskaður, sólber, fíkjur og sveskjur, , feitt, mjúkt og hrjúft til skiptis, gífurlega massíft og öflugt vín. Stórkostlegt.

100%

13.999 krónur. Stórkostlegt vín. Með villibráð.

  • 10
Deila.