Frakkland er lykill að svo mörgu þegar kemur að vínþekkingu og vínskilningi. Breiddin í franskri vínrækt er einstök og það er nánast sama hvar niður er borið, rauðvín, hvítvín, rósavín, freyðivín, létt og spræk vín, þung og öflug, stórkostleg eða ómerkileg – þú finnur þetta allt í Frakklandi. Segja má að í gegnum tíðina hafi frönsku vínin verið megináhrifavaldarnir í vínheiminum.
Það er eiginlega ekki hægt að skilja upp né niður í vínum án þess að hafa yfirsýn yfir helstu vínsvæði og vínstíla Frakklands. Auðvitað má gagnrýna Frakka fyrir margt. Þeir hafa ekki verið í forystu framþróunar um nokkuð skeið þótt vissulega hafi þeir tekið vel við sér á síðustu árum og dregið verulega úr yfirlætinu sem var að verða helsta ógnin við framtíð fransks víniðnaðar. Og það er óumdeilt að frönsku vínin hafa haft og hafa enn mótandi áhrif á nær öll betri vín heimsins í dag.
Bestu vínhús heimsins, hvort sem er í Napa-dalnum, Toskana, Piedmont, Coonawarra í Ástralíu eða Ribera del Duero á Spáni, sækja á einhvern hátt innblástur til þess hvernig víngerð hefur þróast í Frakklandi.
Ein skýrasta birtingarmyndin er hversu útbreiddar frönsku rauðvínsþrúgurnar Cabernet Sauvignon, Syrah, Malbec og Merlot eru eða þá hvítvínsþrúgurnar Chardonnay, Viognier og Sauvignon Blanc. En það birtist líka í því að um allan heim er verið að beita aðferðum sem þróaðar voru í Bordeaux og Bourgogne við til dæmis tunnugerjun og geymslu vína á eik.
Frakkar hafa verið leiðandi í víngerð í tvö þúsund ár og hafa á þeim tíma náð djúpum skilningi á svo mörgu í tengslum við vínrækt, hvernig breyta megi hefðbundnu víni í freyðandi vín, hvernig hægt er að breyta víninu með geymslu á eikartunnum og hvað það eru ótrúlega margir þættir sem hafa áhrif á vínið og taka þarf tillit til. Við höfum þegar fjallað um hugtakið terroir sem er samspil fjölmarga ólíkra þátta er gera að verkum að vínin frá til dæmis þorpinu Beaune í Búrgund eru ólík þeim í nágrannaþorpinu Pommard. Eða hvers vegna jafnvel innan þorpsmarkanna geti vín af ekrum sem liggja hlið við hlið verið gjörólík.
Auðvitað má síðan einnig rekja áhrif franskra vína til áhrifa franskrar matargerðar en öldum saman var fransk matargerð allsráðandi í fínni eldhúsum og veitingahúsum um allan heim.
Segja má að þrjú frönsk héruð hafi verið stefnumarkandi í gerð rauðra vína, þrjú í gerð hvítra vín og eitt í framleiðslu freyðivína.
Þau svæði sem hafa verið mestu áhrifavaldarnir í rauðvínsgerð eru Bordeaux, Bourgogne og Rhone. Eins og við sjáum á kortinu hér til hægri eru aðstæður í þeim mjög ólíkar. Bordeaux við suðvesturströndina við Atlantshafið, Bourgogne eða Búrgund i miðju landinu þar sem er meginlandsloftslag og Rhone teygir sig í suður þar sem Miðjarðarhafsloftslag fer að taka við. Í hvítum vínum bætast svo við Alsace í norðausturhlutanum þar sem fljótið Rín myndar landamæri Frakklands og Þýskalands og Loire-dalurinn sem fylgir fljótinu Loire frá miðju landsins vestur að Atlantshafinu. Hvergi eru svo framleidd eftirsóttari freyðivín en í Champagne og í Languedoc-Roussillon við Miðjarðarhafið eru Frakkar að ná viðspyrnu gagnvart vínum Nýja heimsins.
Öll hafa þessi héruð sérstöðu. Byrjum á Bordeaux. Þar eru gerð stórkostleg, tignarleg rauðvín framleidd úr þrúgunum Cabernet Sauvignon, Merlot, Cabernet Franc og stundum Malbec og jafnvel Petit Verdot eða Carmenere. Vínin frá Bordeaux eiga engan sinn líka þegar best lætur og nær öll bestu vín t.d. Napa eru í stöðugri samkeppni við að ná sömu hæðum.
Stærstu nöfnin í Bordeaux eru Chateau Latour, Mouton-Rothschild, Lafite-Rothschild, Pétrus og Haut-Brion en tugir annarra vínhúsa eru einnig í hópi eftirsóttustu vína heims. Megnið af framleiðslu Bordeaux er hins vegar ódýr og einföld vín. Þetta er hérað sem framleiðir meira af víni en mörg víngerðarlönd.
Færum okkur næst vestur til Rhone en það er nefnt eftir samnefndu fljóti, byrjar rétt suður af borginni Lyon og teygir sig í suður í átt að Miðjarðarhafinu. Þetta er annað helsta rauðvínshérað Frakka og þar eru þrúgurnar Syrah, Grenache, Cinsault og Mourvedre algengastar. Þekktust eru vínin frá Cote-Rotie, Chateauneuf-du-Pape og Hermitage. Rhone hefur verið fyrirmynd að vínum úr Syrah. Ástralir sem kalla þrúguna Shiraz komu henni á radarinn (stóru frönsku Syrah-vínin eru nefnd eftir svæðinu, ekki þrúgunni) og í dag eru frábær Syrah-vín ræktuð í öllum vínheimsálfum.
Þriðji rauði áhrifavaldurinn er loks Bourgogne þar sem einungis ein þrúga er notuð, Pinot Noir. Hvergi hafa menn gengið jafnlangt í að kortleggja ekrur niður í minnstu svæði til að finna bestu reitina og í Bourgogne og bestu rauðvín Bourgogne standa jafnhliða bestu vínum Bordeaux á hátindi vína heimsins. Það er ekki hægt að gera upp á milli vína þessara svæða, enda ástæðulaust.
Bourgogne er hins vegar óumdeilanlega leiðandi í heiminum þegar kemur að hvítvínum. Segja má að stílarnir séu í megindráttum tveir en þrúgan ein. Hún heitir Chardonay og er þekktasta hvítvínsþrúga veraldar. Bourgogne-stílarnir eru alltaf fyrirmyndin. Annað hvort eru menn að gera fersk og stílhrein vín á borð við þau í Chablis eða þá þykk og eikuð líkt og til dæmis í þorpunum Puligny og Beaune, en þekktust allra er ekran Montrachet.
Annað hvítvínshérað sem miklu máli skiptir er Loire. Þótt Loire-vínin séu ekki mjög þekkt alþjóðlega að þorpunum Sancerre og Pouilly undanskildum er þrúga héraðsins Sauvignon Blanc önnur þekktasta hvítvínsþrúga heims.
Þriðja þekktasta hvítvínssvæði Frakka er svo Alsace í norðurhlutanum. Þar eru vínin nefnd eftir þrúgunum en þær helstu eru Riesling, Pinot Gris, Pinot Blanc og Gewurztraminer. Alsace er talið framleiða einhver bestu matarhvítvín heims og eru þau fyrirmynd víngerðarmanna um allan heim.
Það ætti svo engum að koma á óvart að freyðivínsframleiðendur hvar sem er í veröldinni horfa með öfundaraugum til Champagne í Norður-Frakklandi við borgina Reims en hvergi annars staðar eru gerð betri freyðivín og þau einu sem mega kalla sig kampavín. Þar eru það Búrgundarþrúgurnar Pinot Noir og Chardonnay sem aftur koma við sögu.
Hvert sem komið er í Frakklandi eru ræktuð góð vín. Það eru hins vegar þessi svæði sem hér hafa verið nefnd sem hafa gegnt hlutverki alþjóðlegra áhrifavalda.
Lesið fleiri greinar í vínnámskeiðinu VÍN 101
Lesið fleiri greinar um Frakkland, frönsk vín og matargerð