Lini 910 Lambrusco Scuro

Lambrusco-vín þykir ekki fínn pappír hjá mörgum vínunnendum sem gretta sig og fetta þegar þeir heyra þetta orð nefnt. Ég skal fyrstur játa að Lambrusco-nafnið er ekki gæðastimpill í sjálfu sér en rétt eins og með t.d. Soave og Valpolicella er hættulegt að alhæfa. Lambrusco getur nefnilega verið afbragð. Ólíkt því sem flestir halda er Lambrusco ekki samheiti yfir lélegt, sætt rautt freyðivín heldur þrúga en vissulega er framleitt úr henni lélegt, sætt rautt freyðivín. Það er líka framleitt úr henni þurrt rautt freyðivín sem er allt að því unaðslegt, ekki síst með góðum hádegisverði einhvers staðar í sveitum Ítalíu.

Lini-fjölskyldan er ein þeirra sem framleiða Lambrusco samkvæmt gömlum hefðbundnum aðferðum, ekki ósvipuðum þeim sem notaðar eru við framleiðslu á kampavíni. Þetta er alvöru vín og valkostur fyrir þá sem vilja koma nýjungagjörnum gestum á óvart og vera svolítið „molto chic“ eða þá einfaldlega bara njóta af einstaklega góðu víni.

Lini 910 Lambrusco Scuro er lítið djásn, berjaríkt og ferskt með ferskri sýru og allt að því tannískt. Það vinnur á við hvern sopa. Ég myndi jafnvel reyna það með hangikjöti.

2.190 krónur. 91/100

 

 

Deila.