Suður-Afríka

 

Suður-Afríka er land mikilla andstæðna. Fyrir Evrópubúa eru viðbrigðin oft ekki mikil þegar landið er heimsótt. Oft mætti allt eins ímynda sér að maður sé staddur í Evrópu eða Norður-Ameríku. En þrátt fyrir hinn vestræna blæ á borgarlífi og þjónustu er landið órjúfanlegur hluti af Afríku einhverri stórbrotnustu álfu heimskringlunnar. Það er engin tilviljun að á frönsku skuli vera til hugtakið mal d’Afrique eða Afríkuveikin sem útskýrir þær tilfinningar sem Afríka vekur í brjósti þeirra er hana hafa heimsótt. Er menn hafa einu sinni kynnst undrum (og eymd) Afríku heldur hún áfram að toga í menn ævilangt.

Ægifögur náttúran hrífur gesti vegna fjölbreytni sinnar í dýralífi og gróðri. Landið er einstaklega frjósamt og með auðugustu ríkjum veraldar af alls kyns málmum og demöntum. Mannlífið fjölskrúðugt, litríkt og heillandi.

Suður-Afríka er hins vegar einnig land mikillar misskiptingar og þótt margt hafi breyst þar á síðastliðnum áratug eymir enn eftir af sárum aðskilnaðarstefnunnar. Fátæktarhverfin umlykja stórborgirnar og margvísleg vandamál, efnahagsleg jafnt sem pólitísk, hrjá þjóðfélagið. Suður-Afríka hefur engu að síður tekið risavaxin skref í átt til nýrra tíma og gegnir nú forystuhlutverki í álfunni allri.

Vínframleiðslan er ein þeirra atvinnugreina er notið hefur hvað mest af því að landið losnaði úr hinni pólitísku áþján aðskilnaðarstefnunnar. Þótt vín hafi ávallt verið framleidd í Suður-Afríku átti víniðnaðurinn mjög erfitt uppdráttar þegar stórir markaðir í Evrópu og Ameríku lokuðust, annað hvort vegna viðskiptabanns eða því að neytendur hreinlega sniðgengu markvisst allan varning frá landinu.

Vínbændur gátu ekki flutt út framleiðslu sína nema í takmörkuðum mæli og einangruðust þar að auki frá straumum og stefnum í vínheiminum og aðgengi að nýjustu tækni og tólum. Allt breyttist þetta undir lok síðustu aldar og síðan hefur vínframleiðsla í Suður-Afríku verið í stöðugri sókn. Gæði vína eykst ár frá ári og vinsældir vínanna sömuleiðir.

Hér á landi hafa vín frá Suður-Afríku verið í verulegri sókn, sala þeirra tók mikinn kipp upp á árinu 2001 og jókst mikið allt fram til ársins 2004. Þá hægði aðeins á sölunni en Suður-Afríka á nú nokkur af þeim vín sem hvað best seljast á Íslandi.

Samkvæmt vef vínbúðanna eru nú fáanleg 32 hvítvín frá Suður-Afríku og 57 rauðvín. Þó nokkur vín til viðbótar munu síðan vera fáanleg í sérpöntun eða eru einungis seld til veitingahúsa. Það er því engin skortur á suður-afrískum vínum hér á landi. Vissulega hefði ég hins vegar vilja sjá meira framboð af toppvínum landsins en þá umkvörtun mætti því miður setja fram um hvert einasta vínframleiðslusvæði heims. Framboðið á Íslandi er ávallt að miklu leyti bundið við milligæðaflokkinn þótt einstaka perlur slæðist ávallt með inn á milli.

Suður-Afríka flokkast yfirleitt í daglegu tali til Nýja-heimsins þegar víngerð er annars vegar. Það má hins vegar færa sterk rök fyrir því að eðli vínræktar í Suður-Afríku eigi meira sameiginlegt með gamla heiminum í Evrópu en „nýju“ svæðunum í Chile, Ástralíu og víðar.

Ekki einungis vegna þess að þarna er að finna órofna vínræktarhefð er nær tæpar fjórar aldir aftur í tímann heldur ekki síður vegna þess hvernig vínframleiðsla hefur þróast á Höfðasvæðinu á suðurodda Afríku. Ólíkt því sem gerist í Ástralíu og Chile eru það ekki risavaxin vörumerki sem draga vagninn heldur litlir og meðalstórir framleiðendur. Á toppnum trjóna gömlu vínbúgarðarnir Wine Estates sem líkja má við frönsku Chateau-in og eiga sér mörg hver margra alda sögu. Vissulega er að finna stór vínsölufyrirtæki í Suður-Afríku s.s. Distell sem hefur um þriðjung framleiðslu gæðavína á sinni könnu. Sá þriðjungur samanstendur hins vegar ekki af 2-3 stórum vörumerkjum heldur fjölmörgm stórum sem litlum víngerðarhúsum er hvert hefur sína sérstöðu í stíl og sögu.

 

 

Deila.