Franskar þrúgur og Pinotage

Algengasta þrúga Suður-Afríku hefur löngum verið hvítvínsþrúgan Chenin Blanc sem á rætur sínar að rekja til Loire-dalsins í Frakklandi. Í Suður-Afríku gengur hún einnig undir nafninu Steen. En þótt hún sé mest útbreidda þrúgan hefur hún átt nokkuð undir högg að sækja þar sem Chenin Blanc-framleiðslan hefur alls ekki öll verið upp á marga fiska og hún verið notuð til að framleiða ódýr og metnaðarlaus magnvín. Því hefur ræktunarsvæði þrúgunnar dregist ört saman síðustu árin en þrúgan er þó enn ræktuð á um fimmtungi alls vínræktarsvæðis landsins.

Á sama tíma eru hins vegar einnig margir framleiðendur að átta sig á þeim miklu möguleikum sem Chenin Blanc býður upp á, ekki síst í heimi þar sem margir neytendur eru orðnir þreyttir á því að tvær til þrjár þrúgutegundir eru að verða allt að því alls ráðandi. Það má því segja að þótt magnið af Chenin Blanc dragist saman þá eigi vínunnendur kost á stöðugt betri suður-afrískum hvítvínum úr þessari þrúgu.

Það eru nú framleidd mörg stórgóð Chenin Blanc íSuður-Afríku, fersk og aðgengileg með ljúffengum fíkju, sítrus og blómatónum.

Meðal framleiðenda sem hafa náð frábærum tökum á Chenin Blanc eru t.d Rudera. Það vín fæst því miður ekki hérlendis en þó nokkuð úrval af Chenin Blanc-vínum má finn í hillum vínbúðanna í nokkrum verðflokkum.

Á meðan magn Chenin Blanc-ræktunar hefur dregist saman hefur önnur hvít þrúga – Sauvignon Blanc – verið í mikilli sókn enda hentar þessi þrúga (sem einnig á heima í austurhluta Loire-dalsins) mjög vel mörgum af svalari ræktunarsvæðum Suður-Afríku. Sá stíll sem hefur verið að þróast fram í suður-afrískri vínrækt er einhvers staðar á milli Evrópu og Nýja heimsins og ætti því að falla í kramið hjá stórum hópi neytenda.

Það er líka vinsælt hjá framleiðendum að Sauvignon Blanc nýtur sín best ein og sér, þ.e. án þess að vínið sé látið liggja í eikartunnum. Tunnurnar eru dýrar sem eykur kostnað framleiðenda verulega og þar með sjálfsögðu á endanum verðið á vínunum sem neytendur græða.

Sauvignon Blanc gefur mönnum hins vegar kost á því að framleiða góð en tiltölulega ódýr vín.

Í rauðvínum er það þrúgan Pinotage sem helst má flokka sem þjóðarþrúgu en hún er blendingur af Pinot Noir og Cinsault sem splæstur var saman í Suður-Afríku af ræktendum á fyrri hluta síðustu aldar. Pinotage hefur blendið orð á sér enda stílarnir fjölmargir. Í höndum góðra framleiðenda á borð við Kanonkop geta Pinotage-vínin verið hreinsta unun og einstök fyrir Suður-Afríku en stundum eru þau óspennandi með brenndu, hjólbarðagúmmíkenndu bragði.

Illar tungur segja að það hafi dregið nokkuð úr vinsældum Pinotage að hún er sú þrúga er fyrst nær þroska og því þurfa þeir víngerðarmenn sem rækta hana að stytta sumarfríið sitt talsvert til að ná uppskerunni.

Líkt og annars staðar í víngerðarheiminum er það Cabernet Sauvignon sem nýtur hvað mestrar virðingar og oft má finna verulega góð Cabernet-vín þótt sjálfum þyki mér hún njóta sín best þegar víngerðarmenn nota hana í „Bordeaux-blöndu“ ásamt Merlot, Cabernet Franc og jafnvel fleiri þrúgum.

Syrah eða Shiraz nýtur vaxandi vinsælda og höndum víngerðarmanna á borð við Guy Webber hjá Stellenzicht nær hún miklum hæðum. Webber gerir tvö vín úr þrúgunni, hefðbundið vín sem kennt er við Shiraz og ofurvín sem hann kennir við hið franska heiti þrúgunnar eða Syrah. Þessi hugtakamunur er skiljanlegur þegar vínin eru smökkuð – shiraz-vínið er í dæmigerðum Nýjaheimsstíl á meðan Syrah-vínið minnir frekar á vín frá Rhone-dalnum í Frakklandi og þá raunar frekar t.d. Chateauneuf de Pape en hreinræktuðu Syrah-vínin frá Hermitage og Cote Rotie.

Búrgundarþrúgan Pinot Noir er einnig að ryðja sér til rúms í auknum mæli en hún er þekkt fyrir að vera brokkgeng utan heimahagana og erfið í ræktun. Á nokkrum svæðum hafa suður-afrískir víngerðarmenn hins vegar náð undraverðum árangri. Það á t.d. við um Bouchard-Finlayson (þar sem Búrgundarfjölskyldan Bouchard kemur við sögu) og Hamilton-Russel sem framleiðir stórkostleg – og vissulega nokkuð dýr – vín úr Búrgundarþrúgunum tveimur Pinot Noir og Chardonnay.

Það er erfitt að alhæfa um árganga í Suður-Afríku af mörgum ástæðum. Í fyrsta lagi þá eru loftslagssveiflur mun minni á milli ára en gengur og gerist í Evrópu og að því leytinu til líkist Suður-Afríka mun meira öðrum Nýja-heimsríkjum. Vissulega eru öll ár ekki eins en það lýsir sér ekki í miklum gæðasveiflum á milli ára heldur frekar þannig að það hafi áhrif á t.d. sýrustig og þar með langlífi þeirra vína sem eru þess eðlis að borgar sig að láta þau bíða í nokkur ár. Alla jafna má þá ganga út frá því að árgangarnir séu nokkuð áþekkir.

Það sem hefur fyrst og fremst áhrif á vínið er því ekki árið heldur miklu fremur uppskerutíminn og vínræktarsvæðið.

Deila.